Létt grín um brjóstahaldara


Árshátíð

Árshátíð  2008Við komumst saman á árshátíð eftir allt saman.  Mikið gaman, mikið fjör.  Við fórum reyndar heim að loknu borðhaldi til að sækja krakkana, þorðum ekki að láta Þórdísi gista ef hún færi nú að rjúka aftur upp í hita.  Þau fengu að vera í heimsókn hjá Lauju frænku og hennar fjölskyldu á meðan.

Það er spáð fínu veðri um helgina svo við stefnum að því að njóta þess til hins ítrasta.  http://www.vedur.is/

Við fórum með Bjössa á skíði og Þórdísi á sleða í Ártúnsbrekkuna fyrir u.þ.b. tveimur vikum síðan.  Bjössi var alveg ótrúlega fljótur á ná tökum á diskalyftunni.  Hann fór síðan með pabba sínum upp í Bláfjöll nokkrum dögum síðar.  Þar sá hann menn í fallhlífum og spurði strax hvort þeir gætu ekki leigt svona.Grin

GrettirSíðasti balletttíminn hennar Þórdísar þennan veturinn er á morgun.  Önninni lýkur svo með ballettsýningu í Borgarleikhúsinu í næstu viku, afmælisvikunni hennar, en hún er að verða fimm ára sú stutta.  Ég held að efst á óskalistanum sé Grettir, eitthvað um Gretti eða með myndum af Gretti.  Hún er alveg með hann á heilanum þessa dagana.  Teiknar heilu myndasögurnar í leikskólanum um Gretti og félaga.  Afmælistertan á að vera hvít súkkulaðiterta, með mynd af Gretti ofaná, nammi og sleikipinnum.


Lasleiki

Þórdís var heima í dag með kvefpest og hita og það er ekki nema hálfur mánuður frá því að hún reis úr rekkju eftir flensu.  Ég var heima hjá henni í mestallan dag, en Eiki skaust heim um miðjan daginn svo ég kæmist aðeins niðrí vinnu.  Ég vona að hún verði hitalaus á morgun sem er reyndar ekki líklegt í ljósi þess að hún er nú með 39,3°C.  Ég var nefnilega farin að hlakka til að komast á árshátíð á morgun með kallinn með mér, búin að redda pössun og krakkarnir farin að hlakka til að fá að gista hjá Lauju frænku sinni.

Litlu naggrísaungarnir tveir, þeir Snar og Snöggur, fluttu að heiman í gær.  Krakkarnir fóru með í gæludýrabúðina til að kveðja þá.  Það var dálítið tregablandin kveðjustund en þau vissu frá upphafi að þannig myndi þetta ævintýri enda.  Snar og Snöggur fóru í búr með tveimur öðrum ungum á svipuðum aldri og virtust una sér vel.  Ég var búin að lofa Bjössa því að við myndum kíkja til þeirra í búðina í dag en svo vildi hann frekar fara í tölvuleik, sagðist bara ætla að heimsækja þá á morgun, og Þórdísi er alveg sama, bara ánægð með Lottu gömlu.

"Mamma við verðum að láta Lottu eignast unga á morgun", sagði hún reyndar rétt í þessu, kannski ekki alveg sama.


Fjölgun í fjölskyldunni

Litla fjolskyldanÁ bolludaginn fæddust hjá okkur tveir litlir naggrísir sem eru því þriggja vikna gamlir í dag.  Við vitum ekki enn fyrir víst hvers kyns þeir/þau eru en við höfum kallað þá Snaran og Snöggan eftir litlu íkornunum úr Andabæ því þeir eru svipaðir á litinn.  Þeir verða bara hjá okkur í eina viku til viðbótar því þá verða þeir víst kynþroska og við ætlum ekki að stuðla að frekari fjölgun.  Þeir fara í gæludýrabúðina í hverfinu okkar.

Tobbi (pabbinn) kom til okkar í september á síðasta ári.  Við kenndum svo í brjósti um hann, því hann virtist svo einmana, og þegar við rákumst á naggrísapæjuna Lottu í nóvember þá ákváðum við að bæta henni við.  Okkur var sagt að líklega væri hún ófrjó því hún væri búin að vera með naggrísakalli í búri frá því að hún hefði orðið nógu gömul til að eignast unga og þar að auki væri hún orðin svo gömul, þá 8 mánaða, að líklega væri gróið fyrir fæðingaropið.  Þetta hljómaði skringilega en við vildum trúa þessu og ákváðum að taka sénsinn.

Ekki leið langur tími þar til daman fór að þykkna og verða ansi matlystug, sat nánast allan daginn með framfæturna á matarskálinni sinni og skrækti á mat.  Þegar hún gat vart lengur troðið sér inn í kofann sinn fórum við með þau bæði til dýralæknis í skoðun.  Það fór ekki á milli mála að Lotta var komin á steypinn.  Gróið fyrir hvað ... Shocking ... enda hló dýralæknirinn þegar hún heyrði það bull.  Fæðinginn gekk þó ljómandi vel, en Tobbi greyið var snarlega sendur í ófrjósemisaðgerð.


Trúariðkun, í stað sjónvarpsgláps kannski?

Já, maður ætti kannski að fara að glugga í biblíuna á kvöldin að loknum fullum vinnudegi, heimilisþvotti, líkamsrækt, tilbúningi holls matar, frágangi í eldhúsi, almennri tiltekt og háttun barna. 

Smá afslöppun um stórhátíðar og helgar gæti kannski líka verið til bóta, en því miður fara þessi frídagar hjá manni oft ansi mikið í þeyting á milli kaffi- og matarboða.

Sem dæmi um týpískan sunnudag hjá mér í gær:  Ég fór á fætur um hálftíu, sem er auðvitað alltof seint.  Fékk mér morgunmat og kaffibolla sem ég gaf mér ekki tíma til að klára, man ekki hversvegna, ætli ég hafi ekki þurft að skeina einhvern Woundering.  Fór síðan í það að ganga frá þvotti vikunnar, finna til föt fyrir sjálfa mig og krakkana, fór síðan að taka til.  Tiltektin færðist síðan yfir í frágang á jólaskrauti, tína skrautið af trénu, taka niður aðventuljósið og ljós úr fjórum gluggum.  Hitaði mér smá fiskafgang í örbylgjunni sem ég gleypti í mig áður en við fórum í heimsókn til mömmu um þrjúleytið en ég var að fara með föt til hennar sem ég keypti fyrir hana í vikunni.  Fórum þaðan í heimsókn til tengdó um fimmleytið.  Eiki hljóp svo inn í búð á heimleiðinni.  Vorum komin heim um hálfsjö.  Ég ákvað þá í stað þess að byrja að elda eins og ég geri flesta daga að gera eitthvað sem mig sjálfa langaði til og fór ein út í gönguferð en tók reyndar niður jólaseríu úti í leiðinni.  Þegar ég kom heim var fjölskyldan að borða tilbúnar kjötbollur hlaðnar aukaefnum, með spagettíi og baunum úr dós.  Fékk mér af óhollustunni með þeim.  Gekk svo frá eftir matinn á meðan Eiki hjálpaði Bjössa með heimalærdóminn.  Gaf fjölskyldunni smá súkkulaði í eftirrétt, naggrísunum salat að borða og náði því að horfa á sunnudagskvöld með Evu Maríu að mestu án truflunar.  Kom Þórdísi í náttfötin, burstaði í henni tennurnar, las fyrir hana og lá svo hjá henni nokkra stund.  Um hálfellefu fór ég niður, horfði á hálfa bíómynd á DVD.  Sofnaði eins og steinn uppúr kl. 12. 

Segi svo einhver að maður sé bara að dúlla sér!  Spurning hvar ég ætti að bæta inn trúariðkuninni LoL


mbl.is Trúariðkun og hjálplegur eiginmaður draga úr streitu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef þú færð ekki það sem var á óskalistanum ...

... gæti þetta verið ástæðan:

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Skemmtilegt jóladagatal á netinu

Þar sem í dag er tiltektardagur í vinnunni og jólasukk á eftir er ég bara öll að komast í jólaskap.  Ætli maður klári svo ekki bara jólagjafainnkaupin í framhaldinu Whistling

http://www.jonolafur.is/dagatal.html


Grýla

Við fórum með krakkana í jólaþorpið í Hafnarfirði í gær.  Það var voða fjör, Gunni og Felix að syngja og Gluggagægir og Grýla komu í heimsókn, svo var dansað í kringum jólatréð.  Nema börnin mín þau vildu ekki dansa.  Ég fór að syngja með jólalög, þá leit Bjössi á mig alveg forviða og spurði: "Af hverju ertu að syngja mamma".  Krakkarnir voru ekkert hrædd við Grýlu enda var hún lítil, horuð og aumingjaleg, og minni en Gluggagægir Shocking.  Hún virðist eitthvað vera að skreppa saman með árunum kellingin.

Við sáum Grýlu á sama stað í fyrra en hún var þá að bjóða börnunum upp á hákarl.  Þórdís vildi helst ekki sjá hana í gær því hún var svo hrædd um að Grýla myndi aftur bjóða upp á hákarl.  Þegar maður er lítill þorir maður líklega ekki að segja nei takk við svona ógnvænlega skessu.

Við keyptum svo jólarandalínur og brunuðum í kaffi til tengdó.


Fjölskyldan í ræktina

Bjössi byrjaði í karate í haust og hefur haft gaman af.  Hann var reyndar búinn að fara í þrjú skipti í handbolta áður en var ekki spenntur fyrir því að mæta oftar, því miður því hann hefði orðið góð vinstri handar skytta.  Nú mætir hann tvisvar í viku í Fylkishöllina og er  farin að hlakka til að fá gula beltið, JAMME.

Við Eiki ákváðum að drífa okkur í líkamsræktina hjá Þreki í sama húsi og puða þar á meðan Bjössi er í karatetímunum.  Það liggur við að maður yngist um 10 ár við hvert skipti, þetta borgar sig svo sannarlega.  Svo er Þórdís svo ánægð í barnagæslunni.  Það kom fyrir í eitt skipti um daginn að ég var löt og var að hugsa um að slaka á í sófanum heima, en Þórdís tók það ekki í mál. "Ég vil fara í leikfimihúsið og horfa á Tomma og Jenna".  Svo er líka rennibraut.  Nú þýðir ekkert lengur að reyna að skorast undan.  Næst erum við að hugsa um að skella okkur bara í sund á eftir og taka með samlokur í nesti, því þetta er allt í gangi á kvöldmatartíma.

Það bráðvantar reyndar  veitingasölu í grennd við sundlaugina og íþróttamannvirkin í Elliðaárdalnum.  Maður getur keypt rúnnstykki, kleinur og eitthvað slíkt í sundlauginni, en það væri frábært að geta keypt súpu, samlokur og cappuccino á þessum slóðum.  Kannski heitt kakó eftir röska vetrargöngu í dalnum.


Þrjár systur í haustfríi

Þrjár af okkur systrum notuðum tækifærið í haustfríi barnanna til að skreppa saman út úr bænum og styrkja stórfjölskylduböndin.  Við fengum á leigu gamlan bústað í Þverárhlíðinni, fylltum bílana af köllum, börnum, mat og drykk og brunuðum svo af stað, naggrísinn fór meira að segja með, í hundabúri.

Við skoðuðum Landnámssýninguna á Landnámssetrinu í Borgarnesi sem var mjög áhugavert, þar er líka hægt að skoða aðra sýningu, Egilssýninguna en við ákváðum að bíða með hana þar til næst.  Gott að hafa ástæðu til að koma aftur á þennan vel heppnaða stað.

Graskerssúpa á veitingastaðnum á fimmtudeginum var mjög góð og villisveppasúpa á laugardeginum ekki síðri, heimabakað brauð með og ilmandi kaffi á eftir.  Umhverfið er mjög skemmtilegt en veitingahúsið mun vera í elsta húsi bæjarins sem hefur verið gert smekklega upp.  Eitthvað annað en að sitja yfir sveittum og subbulegum borgurum á bensínstöð, hugsanlega fljótlegra en ekki nærri eins skemmtilegt.  Safnbúðin býður þar að auki upp á skemmtilega hluti, m.a. frá hinum íslenska bændamarkaði (farmers market).

Á föstudeginum fórum í sund á Kleppjárnsreykjum.  Þar er ágætis sundlaug og heitur pottur og þó nokkuð af korkleikföngum og boltum fyrir börnin.  Við fengum okkur hins vegar ekki Jónsborgara staðarins, veltum því fyrir okkur hvort Jón væri þar hakkaður í brauði.  Fórum að sundferð lokinni að Hvanneyri og kíktum inn í Ullarselið.  Keypti hlýja og fallega húfu handa Bjössa með hestamynstri og hét því að drífa mig á prjónanámskeið eftir áramót.  Við fórum svo aðeins inn í Kollubúð og fengum okkur pulsu og kók.  Þar fást líka hlý og mjúk ullarnærföt á börn sem stinga ekki og eru framleidd af konu í sveitinni, ullarnærbolir eins og ég gekk í sem barn.  Ég fékk þar slíka nærboli fyrir bæði börnin, ullarnærbuxur fyrir Þórdísi og kraga.  Ég keypti þarna ullarnærbuxur handa henni fyrir nokkrum árum, þær eru í tveggja ára stærð en hún hefur verið að nota þær alveg fram á þennan dag, kominn tími til að endurnýja.

Að loknum ullarkaupum fórum við í nýja fjósið og fengum leyfi fjósamannsinns til að kíkja inn.  Bjössi og Þórdís voru himinlifandi yfir því að fá að skoða kálfana og þeir virtust ekki hafa minna gaman af að skoða þau, enda þurftu þau að vera ansi snör í snúningum stundum að forðast langar og blautar kálfatungur.  Skömmu síðar bættust tvær fjósakonur í hópinn og kýrnar fengu heyskammtinn sinn, verst að fjósakötturinn sást hvergi.  Hann hefur líklega verið að eltast við mýs.

Á laugardeginum fengu krakkarnir að sníkja nammi að amerískum bíómyndahætti, grikk eða gott, algjörlega þeirra hugmynd, en við spiluðum með og létum þau hafa svolítið fyrir því að fá nammi í poka.  Þau urðu að syngja fyrir okkur, dansa eða leika einhverjar listir, það gekk ljómandi vel Hinrik spilaði meira að segja á gítar.  Um kvöldið flamberuðum við piparsteik, bökuðum kartöflur og drukkum rauðvín, nema börnin sem fengu hamborgara og gos, nammi í skál fyrir alla á eftir.  Poppuðum svo og horfðum á vídeó.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband