25.10.2007 | 10:22
Konur yfir fertugt
Ég fékk þennan sendan í morgun frá vinkonu minni og ákvað að láta hann flakka til að gleðja konur eins og mig, yfir fertugu.
Eftir því sem ég eldist, met ég mest konur yfir fertugt og hér eru nokkrar ástæður fyrir því:
Kona yfir fertugt mun ekki vekja þig um miðja nótt og spyrja þig "hvað ertu að hugsa?" Henni gæti ekki verið meira sama.Ef kona yfir fertugt vill ekki horfa á leikinn með þér vælir hún ekki yfir því. Hún gerir eitthvað sem hana langar til og yfirleitt er það áhugaverðara en leikurinn.
Konur yfir 40 eru virðulegar í framkomu. Þær fara sjaldan í öskurkeppni við þig í óperunni eða á fínum veitingastað. Nema þú eigir það skilið, þá hika þær ekki við að skjóta þig ef þær halda að þær komist upp með það.Eldri konur eru örlátar á hrós, oft óverðskuldað. Þær vita hvað það er að vera ekki metin að verðleikum.
Konur verða skyggnar með aldrinum. Þú þarft aldrei að viðurkenna misbresti þína fyrir þeim.
Þegar þú getur litið framhjá einni eða tveimur hrukkum er kona yfir 40 langtum kynþokkafyllri en yngri kynsystur hennar.
Eldri konur eru hreinar og beinar. Þær segja þér eins og skot að þú sért asni ef þú hagar þér sem slíkur. Þú þarft aldrei að fara í grafgötur með hvar þú hefur þær.
Já, við dásömum konur yfir fertugt af mörgum ástæðum. Því miður er það ekki gagnkvæmt. Því fyrir hverja glæsilega, smarta og vel greidda konu yfir fertugt, er sköllóttur, vambmikill forngripur í gulum buxum gerandi sig að fífli fyrir 22ja ára gengilbeinu. Konur, ég biðst afsökunar.Til allra þeirra karla sem segja; "Afhverju að kaupa kúna þegar þú getur fengið mjólkina frítt?" þá eru hér nýjar upplýsingar: Nú á tímum eru 80% kvenna á móti giftingum. Hvers vegna? Vegna þess að konur gera sér grein fyrir að það borgar sig ekki að kaupa heilt svín þótt þær langi í smá pylsu!
Andy Rooney
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 10:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.10.2007 | 12:25
Brúðkaupsafmæli
Við hjónin eigum 8 ára brúðkaupsafmæli í dag. Við gengum í það heilaga á sólríkum haustdegi í Þingvallakirkju. Af þessu tilefni fórum við út að borða á Einar Ben sl. laugardag. Við fengum þar mjög góðan mat og þjónustu og förum áreiðanlega þangað aftur. Við borðuðum steiktan saltfisk með rúsínumauki og drukkum Kanonkop rauðvín sem smellpassaði með. Í eftirrétt fengum við heita súkkulaðiköku og skyr créme brullé, namm. Fórum síðan á hótel Nordica og sátum með freyðivín við arineld langt fram á nótt.
Það féll í minn hlut að taka á móti litlu gaurunum eftir skóla í gær. Ég ákvað líka að sækja Þórdísi strax ef veðrið skyldi versna. Ég átti til stamp af sænskum piparkökum sem var keyptur um helgina og Bjössi vissi um glassúr í túbum uppi í efstu hillu í eldhúsinu. Svo ég lét þau fá það verkefni að skreyta piparkökur. Þau voru ótrúlega róleg lengi að dunda við að skreyta sem kom sér vel fyrir mig því ég var með heimaverkefni úr vinnunni. Ég hitaði síðan fyrir þau kakó og þau byrjuðu að horfa á jólamynd. Sú sæla entist þó ekki lengi því eftir smástund voru þau búin að tjalda á stofugólfinu, tína allar sængur, teppi og kodda inn í tjaldið og komin í gamnislag.
28.9.2007 | 10:34
Foreldraraunir
Þá er september að verða búinn, haustið formlega tekið við og skipulagsdagar hafnir í skólunum. Leikskólinn hennar Þórdísar var lokaður á mánudaginn vegna skipulags en þá var ég með hana heima og reyndi jafnframt að sinna verkefnum vegna vinnunnar, svo er skólinn hans Bjössa lokaður í dag. Við Eiki vorum svo heppin að mamma besta vinarins bauð honum að vera hjá þeim í dag því hún er í vaktafríi.
Það hefur ekki fengist fólk til starfa í skólaselinu hans Bjössa þannig að við erum ennþá í því tvennir foreldrar að skiptast á að rjúka heim úr vinnu á miðjum degi, með aðstoð þeirra afa og amma sem hafa ennþá heilsu til að passa litla gaura.
Ofan á þetta bætist í næstu viku við að Þórdís verður send heim úr leikskólanum einu sinni í viku eftir hádegið vegna manneklu. Verði veikindi á starfsfólki gæti þurft að senda börnin heim oftar. Starfsmenn leikskólans tínast annaðhvort í fæðingarorlof eða í helmingi betur launuð störf annars staðar og enginn kemur í staðinn. Foreldrar voru mjög heitir út af þessu máli á fundi í leikskólanum nú í vikunni og ég hef heyrt frá fleiri foreldrafélögum að svipað sé uppi á teningnum hjá þeim.
Hvers vegna eru leikskólakennarar ekki með sömu laun og aðrir kennarar? Er þeirra ábyrgð minni? Þurfa þeir minni undirbúning, minni menntun, minna af einhverju?
Og hvað með frístundaheimilin? Ekki veit ég hver launin eru þar en mér finnst einkennilegt að þau séu svo lág að framhaldsskólanemar sjái sér ekki hag í slíkri aukavinnu.
Þetta er mál sem verður að leysa sem fyrst. Ég á orðið í vandræðum með að skila fullum vinnudegi, vandamálið er því farið að bitna á mínum vinnuveitendum líka. Maðurinn minn nær ekki fullri vinnuviku heldur. Hve lengi sætta vinnuveitendur sig almennt við það að starfsmenn fari heim eftir hádegi nokkrum sinnum í viku? Jafnvel þótt starfsmaðurinn taki með sér verkefni heim og vinni frameftir hina dagana þá er þetta óheppileg þróun sem veldur óróa og tætingi á heimili og í vinnu.
Það heyrist ósköp lítið frá stjórnvöldum um þetta mál. Eru þau að bíða eftir því að foreldrar hætti að vinna úti og fari að vinna heima? Þá færist manneklan bara frá leikskólum og frístundaheimilum til annarra starfa.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.9.2007 | 12:15
Svona er lífið bara
Þórdís byrjaði í ballett í gær. Við höfum oft lesið saman bókina um Albertínu ballerínu sem henni þykir mjög skemmtileg. Hún var hálfpartin utan við sig í tímanum, hefur líklega þótt það hálfóraunverulegt að vera sjálf í sporum Albertínu. Hún horfði eins og álfur út í loftið á meðan hinar fóru í fyrstu position og plié. Það verður forvitnilegt að sjá hvernig henni mun líka þetta. Ætli hún hafi ekki líka verið hissa á því að kennarinn væri ekki í gulum blúndukjól eins og fröken Lillý.
Við fórum á hundasýningu í gær alveg óvart þegar við skruppum í Garðheima að kaupa blóm og naggrísafóður. Þórdís sagði í hvert sinn sem hún sá nýja hundategund: "Mig langar í svona hund". Hún fékk gefins eintak af hundablaði og hélt áfram suðinu heima. Mig langar í svona hund, og svona hund og ...
Ég sagði við hana hvað hún myndi nú gera þegar hundurinn þyrfti að pissa og kúka. Ég myndi bara setja hann út í garð sagði hún. Þá sagði ég við hana að fljótlega yrði garðurinn allur út í hundaskít og þá þyrfti að fara út með skóflu að moka löllunum upp í poka og setja í ruslatunnuna. Því svaraði hún: "Mamma, svona er lífið bara".
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 12:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.9.2007 | 13:40
Litli grís
Það fjölgaði í fjölskyldunni í síðustu viku. Hann fékk nafnið Tobbi og er fjögra mánaða naggrís. Það er mikil ánægja með gæludýrið meðal barnanna, stundum heldur mikil. Hann var kominn inn í dúkkuhúsið um daginn með bleika sæng og annað skipti hafði Þórdís byggt fyrir hann kofa úr lego kubbum, sem var eiginlega bara þröngt rör, og svo var hún að reyna að ýta honum þangað inn. Hann Tobbi litli er sem betur fer skapgóður og þolinmóður grís. Hann gefur frá sér lágt kurr ef honum líður vel en skrækir þegar honum fer að blöskra meðferðin, en hann bítur sem betur fer ekki. Ég er í fullri vinnu við það á kvöldin að fylgjast með því að allt sé í lagi hjá honum greyinu.
Bjössi skrifaði sögu um naggrísinn í skólanum og teiknaði mynd af sér og Tobba. Hann var sjálfur risavaxinn á myndinni í blárri peysu og með rosa vöðva en grísinn líkari randaflugu.
Ég var að vona að með tilkomu gríssins myndi Þórdís hætta að suða stöðugt um að fá hund, en nei því miður ekki alveg. Ég ætla samt að reyna að halda það út að vera hundlaus í 3 ár til viðbótar.
4.9.2007 | 13:34
Gaman hjá tannsa
Þeir sem hafa gaman af monsieur Clouseau kíkið á þetta:
http://www.youtube.com/watch?v=zM9-3HP62FM&NR=1
31.8.2007 | 12:46
Myndir frá ættarmóti niðja Guðmundar og Þórunnar
Þriðja ættarmót niðja Guðmundar Eyjólfssonar og Þórunnar Jónsdóttur frá Þvottá í Álftafirði, Geithellnahreppi, var haldið síðastliðinn laugardag. Ég setti inn nokkrar myndir sem ég tók þá. Ég hef því miður ekki nöfn allra, en þið ættingjar mínir sem villist inn á þessa síðu megið gjarnan hjálpa mér að bæta úr því með athugasemdum.
Hér er slóð inn í myndaalbúmið: http://matta.blog.is/album/AEttarmotidiagust2007/
Af þessu tilefni set ég hér inn upplýsingar um ættir okkar Eiríks, foreldra okkar, ömmur og afa:
Matthildur Bára Stefánsdóttir f. 24. júlí 1964 í Reykjavík og Eiríkur Björnsson tannlæknir, f. 6.des. 1959 í Reykjavík. Börn okkar eru Björn Ívar, f. 14. júní 2000 í Reykjavík og Þórdís Matthea, f. 19. mars 2003 í Reykjavík.
Ætt Matthildar:
Pabbi: Stefán Guðmundsson fv. framkvæmdastjóri í Reykjavík, f. 16. júní 1922 að Starmýri í Álftafirði, Geithellnahreppi, d. 16.6.2007.
Afi: Guðmundur Eyjólfsson bóndi Þvottá f. 20. sep. 1889 í Kambshjáleigu í Hamarsfirði við Djúpavog,d. 2.9.1975.Amma: Þórunn Jónsdóttir húsfreyja f. 5. sep. 1888 á Rannveigarstöðum í Álftafirði, d. 26.11.1956.
Fósturforeldrar pabba voru:Árni Antoníusson bóndi á Hnaukum, f. 26. ág. 1877 í Tunguhlíð í Álftafirði, d. 16.10.1935.
Björg Jónsdóttir húsfreyja á Hnaukum, f. 13. júní 1870 í Hvalsnesi í Lóni, d. 4.5.1963.Mamma: Matthea Jóhanna Jónsdóttir listmálari, f. 7. júlí 1935 á Þverá á Síðu í V- Skaft.
Afi: Jón Guðmundsson verkamaður í Reykjavík, f. 17. maí 1896 á Kvennabrekku í Dölum , d. 16.9.1968.Amma: (Jóhanna) Matthildur Kristófersdóttir húsfreyja, saumakona, f. 6. des. 1906 á Þverá á Síðu, d. 10.10.1983.
Ætt Eiríks:Faðir: Björn Eiríksson skrifstofumaður í Reykjavík, f. 16. okt. 1931 í Neskaupstað, d. 26.10.2005.
Afi: Eiríkur Björnsson læknir í Neskaupsstað og síðar í Hafnarfirði, f. 15.6.1898 í Karlsskála í Reyðarfirði, d. 10.1.1993.Amma: Anna Oddný Einarsdóttir húsfreyja í Neskaupsstað og síðar í Hafnarfirði, f. 5.10.1903 á Hafranesi í Reyðarfirði, d. 1.5.1988.
Móðir: Hjördís Halldórsdóttur hjúkrunarfræðingur í Reykjavík, f. 4. apríl 1931 á Arngerðareyri í Nauteyrarhreppi.Afi: Halldór Jónsson búfræðingur, bóndi á Arngerðareyri í Nauteyrarhreppi, f. 28.2.1889 í Grasi við Þingeyri, d. 24.7.1968.
Amma: Steinunn Guðrún Jónsdóttir húsfreyja á Arngerðareyri í Nauteyrarhreppi, f. 5.3.1894 að Auðshaugi Barðaströnd, d. 7.9.1962.
(Myndin af okkur var tekin á Ljósmyndastofunni Svipmyndum af Fríði Eggertsdóttur ljósmyndara í febrúar 2005).
Vinir og fjölskylda | Breytt 4.9.2007 kl. 13:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.8.2007 | 13:49
Töff miðbær úr steypu, gleri og stáli
Ég hef áhyggjur af því að með mikilli uppbyggingu nýtískulegra húsa við Laugaveg verði hann smám saman eins og Ármúlinn eða Hamraborgin og hver nennir að ganga þar um að óþörfu.
Gömlu húsin okkar eru líklega flest byggð af vanefnum og mörg orðin hálfónýt en mér finnst að við þurfum samt að fara sérstaklega varlega í að rífa þessi gömlu hús og byggja ný. Gott væri að sameina þetta á einhvern hátt. Mér finnst nýuppgerð hús í Aðalstrætinu og nýja gamaldags hótelið þar t.d. hafa heppnast vel fyrir þann stað.
Mér finnst að það mætti tengja betur saman Laugaveginn og Borgartúnið, tengja þannig gamalt og nýtt, auk þess sem bæta mætti umhverfi Borgartúnsins þannig að það henti betur gangandi vegfarendum. Það tekur ekki nema 2-3 mínútur að ganga á milli þessara gatna og nóg er af nýbyggingum í Borgartúninu.
Við sem búum inn undir Elliðaám förum ekki í gamla miðbæinn eftir nauðsynlegri þjónustu enda getum við farið mun styttra eftir henni. Við förum hins vegar í bæinn til að upplifa heimilislegt andrúmsloftið sem er hvergi annarsstaðar, nema kannski í gömlum bæjum í útlöndum, rölta um, sýna okkur og sjá aðra, kíkja á kaffihús og kaupa kannski eitthvað spennandi í leiðinni.
Gamla bæinn í Stokkhólmi, Gamla Stan, stóð til að rífa fyrir nokkrum áratugum. Mörg húsanna eru frá 16. og 17. öld og göturnar eru þröngar, hellulagðar miðaldagötur. Um miðja síðustu öld var Gamla Stan hálfgert "slömm". Mikið af gömlum húsum voru rifin í Stokkhólmi 1950-1970 og byggð nýtískuleg háhýsi í staðinn, nú kallað City. Þessi nýi miðbær þeirra þykir fáum fallegur. Gamla Stan fékk hins vegar að vera og var endurnýjað í sínum miðaldastíl. Það iðar nú af mannlífi og hefur mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn enda er þar mikið af litlum minjagripabúðum, fataverslunum, veitingastöðum og kaffihúsum.
Í miðbæ Osló er mikið af gömlum húsum í nýklassískum stíl sem voru byggð á árunum 1850-1900, innanum voru nokkur "slömm" rifin á sjöunda áratugnum og byggð nýtískuleg hús úr steypu og stáli sem á Wikipedia.com er lýst sem vandræðalegri hryggðarmynd ( e. embarrassing eyesores).
Mér finnst skipulagsstefnan í gamla bænum hér í Reykjavík, og reyndar í nágrannabæjunum, oft undarleg og lyktar hún helst af því að landeigendur ráði í raun meiru en skipulagsyfirvöld. Háhýsabyggð við ströndina, stórir kumbaldar sem skyggja á sól og valda vindsveipum. Þetta lítur kannski glæsilega út af hafi, en hentar kannski ekki allra best hér í landi hinna hressandi norðanvinda.
Núna er t.d. afskaplega falleg sýn frá Bankastrætinu út á Faxaflóann og eyjarnar eftir að Faxaskemman var rifin. Þarna gæti maður auðveldlega séð fyrir sér líflega lága verslunar- og þjónustubyggð og kannski eitthvað í líkingu við Akersbryggju í Osló þar sem menn sitja úti á sumardögum yfir drykk. En ég óttast það að með tilkomu fyrirhugaðs tónlistarhúss, sem út af fyrir sig virðist flott, og aðlægra blokka í austantjaldsstíl hverfi þetta fallega útsýni úr bænum.
Hægt er að sjá kynningu á tillögu að tónlistarhúsi á http://austurhofn.is/
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.8.2007 | 09:14
Lykt af hausti
Jæja, þá fer maður að komast í gang aftur eftir sumarleyfi.
Við fórum með krakkana á menningarnóttina. Lögðum bílnum við Kjarvalsstaði og gengum alla leið niður í Aðalstræti með viðkomu á ýmsum stöðum. Krakkarnir voru orðin svo þreytt eftir þetta ferðalag að við tókum strætó til baka og kíktum aðeins á tónleikana á túninu og í fordrykk hjá Hröbbu áður en við fórum heim.
Bjössi er byrjaður í skólanum aftur. Við fórum í vikunni í Skólavörubúðina að kaupa stílabækur, blýanta og fleira sem vantaði. Mest fannst honum þó spennandi að fá sinn eigin vasareikni, samlokuvasareikni. Hann fór hjólandi í skólann í morgun með Kjartani vini sínum. Fyrsta skipti sem hann fer án foreldrafylgdar í skólann. Hann var aldrei þessu vant mjög spenntur að leggja af stað. Því miður er ekki búið að ráða neitt starfsfólk í skólaselið þannig að við erum í hálfgerðu vandræðapúsli með eftirmiðdagana. Við skiptum því reyndar á milli okkar tvennir foreldrar að sækja drengina til að dreifa álaginu. Vonandi fer þetta mál að leysast.
Svo er mannekla á leikskólanum hennar Þórdísar líka en senda þurfti 5 börn heim af deildinni hennar í fyrradag vegna veikinda starfsfólks. Maður getur því hvenær sem er átt von á því að þurfa að rjúka óvænt heim úr vinnunni. Þetta hefur auðvitað ekki aðeins áhrif á börnin og foreldrana heldur einnig vinnustaði foreldranna.
3.7.2007 | 09:53
Andlát í sumarfríi
Pabbi dó daginn eftir að ég bloggaði síðast. Það var 85 ára afmælisdagurinn hans, 16. júní. Hann sagðist eiginlega vera kominn á annan stað og að hann ætlaði að halda upp á daginn þar. Ég vona að hann hafi fengið góða veislu með liðnum ættingjum og vinum.
Ég var nýlent í Stokkhólmi þegar ég fékk fréttina. Við vorum búin að tékka okkur inn á hótelið og nýfarin út í Saluhallen á Medborgarplatsen til að kaupa okkur samloku. Ég trúði því einhvernvegin að hann ætti aðeins meira eftir, myndi ná sér upp úr þessari lungnabólgu eins og þeirri sem hann fékk stuttu áður, þó flaug það um huga mér þegar ég kyssti hann á kinnina og klappaði honum sofandi daginn áður að það gæti verið í síðasta sinn sem ég sæi hann á lífi. Maður veit aldrei hvenær endalokin geta orðið.
Það var óþægilegt að vera fjarri mömmu og systrunum og ég svaf illa fyrstu þrjár næturnar, var einnig í meira símasambandi en annars. Þrátt fyrir þetta áttum við góða daga í Svíþjóð. Við vorum systurnar búnar að sjá til þess að alltaf yrðu a.m.k. tvær okkar heima til að aðstoða mömmu ef til þessa kæmi og að við værum ekki fjarri lengi í senn. Það var netsamband á hótelinu þannig að ég gat sent smá punkta fyrir ræðu prestsins. Við komum síðan heim í tæka tíð fyrir kistulagningu og undirbúning erfidrykkju.
Við skoðuðum okkur um í Stokkhólmi, aðallega í Gamla Stan og á Djurgarden eyju. Maður gæti alveg eytt 2-3 dögum á Djurgarden, við skoðuðum þar Vasa safnið, Junibacken barnasögusafn og leikhús sem er mjög skemmtilegt fyrir krakka og Gröna Lund tívolíið. Við áttu hins vegar eftir að skoða bæði Skansen og dýragarðinn en það bíður betri tíma. Við fórum einnig í 3 daga út úr bænum í lítið orlofshús í orlofsþorpinu Lysingbadet í Skerjagarðinum rétt hjá Vastervik. Litla dóttir mín 4ra ára sagði þegar við vorum í gönguferð milli skerjanna: "Mamma, við skulum koma hingað aftur, hér er svo fallegt". Það væri ég alveg til í að gera og vera þá lágmark eina viku.
Við fórum í Astrid Lindgren garðinn við Vimmerby en það er rúmlega hálftíma akstur frá Vastervik. Manni veitir sko ekkert af 6 klst. þar. Við skemmtum okkur ekkert síður en krakkarnir, þar voru leiksýningar í gangi allan daginn og hittum við bæði Emil í Kattholti og Línu Langsokk, prófuðum ýmsar rennibrautir, tróðum okkur inn í pínulítil hús eða kíktum á glugga. Við vorum í um 5 1/2 klst. en ég hefði alveg verið til í smá kaffisopa í lokin á einhverju kaffihúsinu og að hafa tíma til að kíkja í dótabúðina. Það er ekki sérlega ódýrt þarna inn kostaði rúmlega 6000 kr. ísl. fyrir 4-5 manna fjölskyldu en það er vel þess virði á góðum degi eins og við fengum.