Þrjár systur í haustfríi

Þrjár af okkur systrum notuðum tækifærið í haustfríi barnanna til að skreppa saman út úr bænum og styrkja stórfjölskylduböndin.  Við fengum á leigu gamlan bústað í Þverárhlíðinni, fylltum bílana af köllum, börnum, mat og drykk og brunuðum svo af stað, naggrísinn fór meira að segja með, í hundabúri.

Við skoðuðum Landnámssýninguna á Landnámssetrinu í Borgarnesi sem var mjög áhugavert, þar er líka hægt að skoða aðra sýningu, Egilssýninguna en við ákváðum að bíða með hana þar til næst.  Gott að hafa ástæðu til að koma aftur á þennan vel heppnaða stað.

Graskerssúpa á veitingastaðnum á fimmtudeginum var mjög góð og villisveppasúpa á laugardeginum ekki síðri, heimabakað brauð með og ilmandi kaffi á eftir.  Umhverfið er mjög skemmtilegt en veitingahúsið mun vera í elsta húsi bæjarins sem hefur verið gert smekklega upp.  Eitthvað annað en að sitja yfir sveittum og subbulegum borgurum á bensínstöð, hugsanlega fljótlegra en ekki nærri eins skemmtilegt.  Safnbúðin býður þar að auki upp á skemmtilega hluti, m.a. frá hinum íslenska bændamarkaði (farmers market).

Á föstudeginum fórum í sund á Kleppjárnsreykjum.  Þar er ágætis sundlaug og heitur pottur og þó nokkuð af korkleikföngum og boltum fyrir börnin.  Við fengum okkur hins vegar ekki Jónsborgara staðarins, veltum því fyrir okkur hvort Jón væri þar hakkaður í brauði.  Fórum að sundferð lokinni að Hvanneyri og kíktum inn í Ullarselið.  Keypti hlýja og fallega húfu handa Bjössa með hestamynstri og hét því að drífa mig á prjónanámskeið eftir áramót.  Við fórum svo aðeins inn í Kollubúð og fengum okkur pulsu og kók.  Þar fást líka hlý og mjúk ullarnærföt á börn sem stinga ekki og eru framleidd af konu í sveitinni, ullarnærbolir eins og ég gekk í sem barn.  Ég fékk þar slíka nærboli fyrir bæði börnin, ullarnærbuxur fyrir Þórdísi og kraga.  Ég keypti þarna ullarnærbuxur handa henni fyrir nokkrum árum, þær eru í tveggja ára stærð en hún hefur verið að nota þær alveg fram á þennan dag, kominn tími til að endurnýja.

Að loknum ullarkaupum fórum við í nýja fjósið og fengum leyfi fjósamannsinns til að kíkja inn.  Bjössi og Þórdís voru himinlifandi yfir því að fá að skoða kálfana og þeir virtust ekki hafa minna gaman af að skoða þau, enda þurftu þau að vera ansi snör í snúningum stundum að forðast langar og blautar kálfatungur.  Skömmu síðar bættust tvær fjósakonur í hópinn og kýrnar fengu heyskammtinn sinn, verst að fjósakötturinn sást hvergi.  Hann hefur líklega verið að eltast við mýs.

Á laugardeginum fengu krakkarnir að sníkja nammi að amerískum bíómyndahætti, grikk eða gott, algjörlega þeirra hugmynd, en við spiluðum með og létum þau hafa svolítið fyrir því að fá nammi í poka.  Þau urðu að syngja fyrir okkur, dansa eða leika einhverjar listir, það gekk ljómandi vel Hinrik spilaði meira að segja á gítar.  Um kvöldið flamberuðum við piparsteik, bökuðum kartöflur og drukkum rauðvín, nema börnin sem fengu hamborgara og gos, nammi í skál fyrir alla á eftir.  Poppuðum svo og horfðum á vídeó.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband