Færsluflokkur: Matur og drykkur

Fjölskyldujúróvisjónteiti

Við hittumst þrjár systur ásamt fjölskyldum á laugardagskvöldið og horfðum á júróvisjón af gömlum vana. Ákváðum samt að grilla ekki heldur settum saman spænsk-ítalska veislu í anda þess sem við hefðum kannski gert ef við hefðum stórfjölskyldan farið saman til Ítalíu í eins og stóð til í fyrra.  (Grillið okkar er líka orðið ónýtt og satt að segja er ég að hugsa um að kaupa ekki annað gasgrill, er orðin hálfleið á að hafa þennan sóðalega hlunk á veröndinni).

Við gerðum okkur sérstaka ferð í Mosfellsbæinn til að kaupa brauð í góða, flotta bakaríinu þeirra.  Adda og Stefanía mættu svo til okkar Þórdísar um tvöleytið, á meðan karlpeningurinn var sendur á flugsýningu.  Við dúlluðum okkur svo við að útbúa ítalskar snittur, tapas, sangríu og panna cotta.  Svo skreyttum við allt í fánalitunum á milli þess sem við puntuðum okkur og nutum veðurblíðunnar á veröndinni. Hrabba kom með strákana um fimmleytið þegar Hilmar fór í boltann og dembdi sér með okkur í lokaundirbúninginn.  Eiki keypti síðan barnabox frá McDóna handa krökkunum með tilheyrandi einnota umhverfismengandi drasli sem börn eru svo dásamlega hrifin af.

Kvöldið heppnaðist ljómandi vel.  Úrslitin voru reyndar óvænt, maður var ekki búinn að reikna með Rússlandi svo ofarlega.  Það hefði verið gaman að sjá ísland í einu af 10 efstu en ég var búin að veðja á 12 sætið, þannig að ég var ekki mjög langt frá því.  Ég átti mér ekkert sérstakt uppáhaldslag í keppninni en fannst Spánn og Frakkland senda skemmtilega flippuð atriði.

Við fórum svo í lautarferð með afganga á Klambratúnið á sunnudeginum.  Setti inn nokkrar myndir frá helginni.

Hér er uppskrift að auðveldum tapasrétti:

1-2 rauð chilialdin smátt söxuð og 3 kramdir hvítlauksgeirar eru mýkt í jómfrúarólívuolíu á pönnu eða í ofni.  Síðan er einum pakka af frosnum, afþýddum risarækjum skellt út í og látið hitna í gegn.  Þá er rétturinn tilbúinn.  Gott er að bera hann fram með góðu brauði og hvítvíni.  Við höfum líka oft chili og blekpasta með sem fæst í Manni lifandi (svart og rautt saman í pakka).  Mjög sterkt og hressandi.


Nýtt blogg

Þetta er fyrsti bloggdagurinn.  Ég má ekki vera að því að skrá neitt í dag en skelli hér inn einni uppskrift sem ég fékk hjá Manni Lifandi og er að hugsa um að prófa í kvöld því mér sýnist að ég eigi flest af því sem þarf.

Gulrótarsúpa með engifer og kókos


Fyrir 4
Eldunartími: Minna en 30 mín.

5-6     stk.      meðalstórar gulrætur
1/2     dl.        engifer, rifinn
1        stk.      laukur
3        msk.    sítrónusafi
1/2     dl.        hvítvín (má sleppa)
1/2     knippi  ferskur kóríander
1        dós      kókosmjólk
2        msk.    gerlaus grænmetiskraftur eða grænmetissoð
vatn eða grænmetissoð
salt og nýmalaður svartur pipar 
 
Aðferð:     Gulrætur og laukur er saxað smátt. Grænmetið er léttsteikt- þar til það er orðið meyrt í stórum potti. Þá er vatninu og grænmetiskraftinum/soðinu bætt útí og látið sjóða í ca. 15. mín. Þá ætti grænmetið að vera orðið það meyrt í gegn að töfrasproti ætti að ráða við að fullmauka súpuna. Eftir að hún hefur verið maukuð er hún bragðbætt með hvítvíni (þarf ekki), sítrónusafa og salti og pipar. Rifnum engifernum og kókosmjólkinni er þá bætt saman við. Látið malla við vægan hita í 5 mín eftir að hafa verið bragðbætt. Ferskur rifinn kóríander er settur yfir rétt áður en súpan er borin fram.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband