Bless, bless

Nýja bloggsíðan mín er: http://blogg.visir.is/matta/

Gleymnir jólasveinar eða ...

Bjössi fékk sjokk í morgun, það var ekkert í skónum í glugganum.  Hurðaskellir er ekki til sagði hann, nánast með tár í augum.  Ég reyndi að hugga hann og sagði að kannski hefði hann tafist vegna ófærðar, "eða fórstu kannski svona seint að sofa?"

Þegar hann fór svo að klæða sig í kuldaskóna steig hann á eitthvað hart.  Auðvitað kom Hurðaskellir útihurðarmegin en ekki inn um glugga.


Færeyska er yndislegt mál

Ég fékk þetta sent nýlega.  Íslendingar geta greinilega brosað að ýmsu sem á vegi þeirra verður í Færeyjum (og öfugt).
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Minnir örlítið á mömmu og pabba

Ég hugsa að þau hefðu samt frekar beðið mann um að skutla sér Halo .
mbl.is Sjúkleg stundvísi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinnuferð til Turku

Ég þurfti að skreppa til Turku nýlega vegna vinnu.  Turku er á SV-strönd Finnlands og þar búa tæplega 200 þús. manns.

Flugvélin lenti í Turku rétt fyrir miðnætti.  Þegar ég kom út var um það að velja að fara upp í einu rútuna sem beið eða fara aftast í langa röð fólks sem beið eftir leigubíl í rigningunni.  Ég prófaði aðeins að bíða í röðinni en enginn leigubíll kom svo ég ákvað að taka sénsinn á rútunni, sem var góð ákvörðun.  Rútan keyrði í gegnum eyðilegan bæinn, framhjá verslunarmiðstöðvum og kunnuglegum amerískum keðjubúllum og endaði 10-15 mínútum síðar á aðaltorginu.  Bílstjórinn var svo almennilegur að fara út úr bílnum og benda mér á hvert ég ætti að fara.  Ég þurfti ekki að draga töskuna nema ca. 200 metra og þá var ég komin inn á hótel Centro, lítið og snyrtilegt hótel með góðum morgunmat og almennilegu staffi.

Morguninn eftir rölti ég aðeins um miðbæinn í rigningunni því ég þurfti ekki að mæta á vinnufundinn fyrr en um hádegið.  Þarna er ágætis úrval af verslunum og veitingastöðum.  Ég fór í Casa grande dótabúðina til að velja eitthvað fallegt fyrir börnin sem biðu spennt heima.

Um kvöldið borðuðum við á víkingastaðnum Harald.  Þar fékk ég geitasalat í forrétt, aborra í aðalrétt og rauðvín í leirkrús.  Var of södd fyrir eftirrétt sem er sjaldgæft.  Harald er skemmtilegur staður fyrir túristahópa, maturinn var OK en ekki spennandi.

Daginn eftir fórum við í skoðunarferð á nýja hraðbraut milli Muurla og Lohja en þar hafa verið gerðar ýmsar mótvægisaðgerðir vegna umhverfisins.  Við vorum heppin með veðrið því það hafði létt til.  Vegurinn liggur um fallegt skóglendi og klettabelti þar sem er mikið dýralíf m.a. svokallaðir flugíkornar sem eru á válista í Finnlandi.  Þar hefur t.d. verið gerð sérstök göngubrú lögð jarðvegi fyrir skógardýrin, í stað þess að sprengja burt kletta eru gerð í þá göng til að dýrin komist þar yfir og grannvaxin tré eru sett milli akreina á flugíkornasvæðum til að þeir geti flogið/stokkið yfir veginn.  Ég íslendingurinn var alveg undrandi að sjá þessar ráðstafanir og fór að spjalla um þetta við eina norsku konuna en hún var ekkert hissa og sagði að þetta þekktist í hennar heimalandi.  Hefði nokkrum íslendingi dottið í hug að gera hreindýragöngubrú á Kárahnjúkaveg? Grin

Þegar við komum til baka til Turku keyrði rútan með okkur um bæinn og ein af finnsku vegagerðarkonunum sagði okkur frá því helsta sem fyrir augu bar.  Að því loknu fóru flestir út á flugvöll en ég varð að bíða þar til næsta morgun.  Ég naut þess því að slaka aðeins á.  Gekk niður að dómkirkjunni sem stendur á bakka árinnar Aura þar er mjög fallegt. Ég kíkti síðan í nokkrar búðir í miðbænum, Marimekko, Aarikka, Gina Tricot, hið klassíska H&M og endaði í Stockmann vöruhúsinu þar sem ég fékk mér kvöldmat.

Eldsnemma morguninn eftir, eða kl. 3 að nóttu að íslenskum tíma, fór ég á fætur, í morgunmat og síðan út á flugvöll.  Flugvöllurinn í Turku er mjög fábrotinn, ein pínulítil fríhafnarbúð og smá kaffitería, meira eins og innanlandsflugvöllur.  Ég var mætt stundvíslega út á flugvöll tveimur tímum fyrir brottför, en starfsmennirnir mættu klukkutíma síðar.  Ohh ég hefði getað sofið klukkustund lengur. Gasp

Ég þurfti síðan að bíða á Arlanda flugvelli í Svíþjóð í 5 klst.  Ég lenti einmitt í því eins og margir íslendingar upp úr síðustu mánaðamótum að fá ekki pening úr hraðbanka.  Ég botnaði ekkert í því hvað var að gerast og starfsfólkið skildi ekkert heldur, töldu að ég væri bara búin með peninginn, sem ég vissi fyrir víst að var ekki.  Sem betur fer tók veitingastaður við kortinu svo ég gat keypt mér máltíð.  Hefði það ekki gengið hefði ég þurft að láta mér nægja banana fyrir klinkið.


Kvennakvöldin

Tvær vinkonur fóru á bar og drukku sig fullar eins og kvenna er siður þegar þær eru ekki með karlana með sér. Þegar þær voru að labba heim þurftu þær báðar nauðsynlega að pissa. Þær voru hjá kirkjugarðinum og ákváðu að pissa bakvið legstein.

Sú sem fyrst pissaði þurrkaði sér á nærbuxunum sínum og henti þeim eitthvað út í loftið að því loknu. Vinkona hennar var aftur á móti í rokdýrum nærum sem hún vildi ekki tapa, en var svo heppin að hún gat teygt sig í borða af kransi á næsta leiði og þurrkað sér á honum. Vinkonurnar gátu nú haldið ferð sinni áfram og komust heim heilar á húfi.

Daginn eftir hringdi eiginmaður annarrar þeirra í hinn og sagði: "Þessum kvennakvöldum þarf að fara að ljúka. Konan mín kom nærbuxnalaus heim í nótt."

"Algjörlega sammála!," sagði hinn, "Mín kom heim með samúðarkort á milli rasskinnanna og á því stóð, Frá okkur öllum á Slökkvistöðinni, við munum aldrei gleyma þér."


Sumarið 2008

Ég hef verið ansi pennalöt, ehemm takkalöt, að undanförnu.  Það er reyndar bara búið að vera svo mikið að gera eftir sumarfríið.

Við fórum hringinn í kringum landið í sumarfríinu á 17 dögum.  Byrjuðum á Hólum í Hjaltadal og Hofsósi, vorum svo í viku á Akureyri í íbúð og skoðuðum okkur um m.a. á Siglufirði, Ólafsfirði og Hjalteyri.  Síðan fórum við til Vopnafjarðar, en þangað höfðum við ekki komið áður, og gistum í tvær nætur í bændagistingu.  Hallormsstaður var næsti áfangastaður en þar vorum við í litlu tjaldi í þrjár nætur innan um hjólhýsi, fellihýsi og tjaldvagna.  Skruppum út á Reyðarfjörð og alla leið niður í Viðfjörð, búúú Alien, sáum reyndar engin Viðfjarðarundur bara geitung.  Eftir sól og sælu á NA- og A-landi fórum við í þokuloft á Hornafirði og gistum þar í tvær nætur.  Fórum út að borða á afmæliskvöldinu mínu, dýrindis humarpizzu.  Á afmælisdaginn fórum við inn í Lón.  Sumarfrí 2008 1 323Ég hafði meðferðis kökur í nesti en samt fattaði enginn hvaða dagur væri Shocking.  Enduðum þann góða dag á heimsókn inn að Hoffellsjökli.  Eftir góða dvöl á Höfn fórum við á Kirkjubæjarklaustur þar sem haldið var ættarmót afkomenda Kristófers og Rannveigar (meira um það á http://www.mosar.is/).  Þar náðum við að tjalda og grilla Hornafjarðarhumar áður en rigning og rok skullu á á föstudagskvöldinu.  Á laugardeginum fór ættarmótið hins vegar vel fram í ljómandi góðu veðri.  Eftir þessa löngu ferð brunuðum við heim með smástoppi í Samgöngusafninu á Skógum og það var gott að sofna í eigin rúmi það kvöld.

 


Meira um Helsinki

Pekka Halonen. Tomatoes 1913. Ateneum museum in Finland.Ég byrjaði á því að kíkja aðeins í Ateneum listasafnið í morgun en þar er yfirlitssýning á myndum eftir Pekka Halonen, mjög vel gerðar og flottar myndir.  Tók svo lestina út í Pasila/Böle þar sem ráðstefnuhöllin er.

Eftir hádegismat dreif ég mig í skoðunarferð á vegum verktakafyrirtækisins DESTIA en það er aðalverktakinn í endurbyggingu Hakamaentie hraðbrautar í gegnum borgina en þar er verið að gera 4 mislæg gatnamót á sama tíma, auk hljóðmana og því um líks, og opið fyrir allri umferð á meðan.  Mislægu gatnamótin eru á þremur hæðum, neðst eru lestarteinar, þá kemur hverfisumferðin og efst gnæfir sjálf hraðbrautin, þetta lítur samt ekki eins illa út og það hljómar.

MúmínálfarAð loknum nokkrum fyrirlestrum dreif ég mig í bæinn að kíkja aðeins í búðir.  Mig vantaði einhverjar smágjafir fyrir krakkana og var svo heppin að rekast á fínar gallabuxur fyrir sjálfa mig og þunna sumarúlpu.  Fékk mér svo snarl á kaffihúsi og eyddi restinni af kvöldinu í rólegheitum á hótelinu að búa mig fyrir brottför, því á morgun kveð ég Helsinki, í bili að minnsta kosti.  Það væri gaman að koma hingað einhverntíma með krakkana og kíkja í múmíngarðinn í Naantali en það er víst um 2-3 klst. akstur héðan.  Það er ágætt að vera hér í Helsinki, fólkið er almennilegt og andrúmsloftið afslappað.

 


Helsinki

Ég flaug til Helsinki á laugardaginn til að taka þátt í ráðstefnunni Via Nordica sem hófst í dag.  Eiki kom með mér og við eyddum helginni í að skoða okkur um í borginni.  Við komum hingað seint á laugardaginn að staðartíma því finnarnir eru 3 klst. á undan okkur.  Röltum í bæinn og fórum svo að borða á rússneskum veitingastað "Saslik".  Borðuðum Styrju á meðan tónlistarmenn spiluðu við borðið okkar, bara eins og í bíó.

Í gær hófst dagurinn á kvennahlaupi en við vorum fjórar sem hlupum ... eh hmmm gengum rösklega saman klukkan hálfsex að íslenskum tíma, mjög ferskar og einbeittar, í garði sem er hér rétt við hótelið.  Eftir morgunmat fórum við Eiki út í Suomenlinna eyju og skoðuðum hernaðarmannvirki þar frá 17du öld sem eru á heimsminjaskrá Unesco og fórum inn í kafbát frá 193? og skoðuðum aðalsfólksheimili í anda Jane Austen.  Sigldum svo í land fram hjá litlum eyjum sem litu allar út fyrir að hýsa múmínálfa, fórum svo að skoða rússnesku réttrúnaðarkirkjuna sem var mjög skrautleg og síðan dómkirkuna sem var öllu hóflegri. 

Helsinki dómkirkjaÍ eftirmiðdaginn þurfti ég að fara að skrá mig á ráðstefnuna en þaðan fórum við að skoða Temppeliaukio kirkjuna sem er höggvin inn í klett og vorum svo heppin að þar stóð yfir tónleikaæfing.  Við ætluðum á finnskan veitingastað um kvöldið en vorum eiginlega hálfþreytt eftir daginn og enduðum á ítölskum stað í nágrenni hótelsins.

Temppeliaukkio steinkirkjanÍ morgun röltum við aðeins um bæinn áður en ég fór á ráðstefnuna.  Eiki fór svo út á flugvöll um hádegið og flaug heim.  Ég heyrði í honum áðan en hann var þá búinn að sækja krakkana sem voru spennt að skoða nýja dótið.  Ég rölti milli fyrirlestra í dag og reyndi að velja úr það sem kæmi mér að mestum notum í vinnunni.  Tók svo lestina heim á hótel um fimmleytið og var þá orðin svo þreytt að ég nennti ekki að kíkja í búðir og þá er nú ástandið slæmt LoL.  Við vorum síðan boðin í móttöku í ráðhúsinu þar sem við fengum léttan kvöldverð og drykki.  Var svo heppin að H&M var opið á leiðinni heim svo ég notaði tækifærið og keypti nærföt og sokka fyrir krakkana eins og ég hafði hugsað mér.

Fór svo inn á hótel að hvíla mig og glápa á húsmæður á barmi örvæntingar (Desperate housewifes og Stepford wifes).


Fjölskyldujúróvisjónteiti

Við hittumst þrjár systur ásamt fjölskyldum á laugardagskvöldið og horfðum á júróvisjón af gömlum vana. Ákváðum samt að grilla ekki heldur settum saman spænsk-ítalska veislu í anda þess sem við hefðum kannski gert ef við hefðum stórfjölskyldan farið saman til Ítalíu í eins og stóð til í fyrra.  (Grillið okkar er líka orðið ónýtt og satt að segja er ég að hugsa um að kaupa ekki annað gasgrill, er orðin hálfleið á að hafa þennan sóðalega hlunk á veröndinni).

Við gerðum okkur sérstaka ferð í Mosfellsbæinn til að kaupa brauð í góða, flotta bakaríinu þeirra.  Adda og Stefanía mættu svo til okkar Þórdísar um tvöleytið, á meðan karlpeningurinn var sendur á flugsýningu.  Við dúlluðum okkur svo við að útbúa ítalskar snittur, tapas, sangríu og panna cotta.  Svo skreyttum við allt í fánalitunum á milli þess sem við puntuðum okkur og nutum veðurblíðunnar á veröndinni. Hrabba kom með strákana um fimmleytið þegar Hilmar fór í boltann og dembdi sér með okkur í lokaundirbúninginn.  Eiki keypti síðan barnabox frá McDóna handa krökkunum með tilheyrandi einnota umhverfismengandi drasli sem börn eru svo dásamlega hrifin af.

Kvöldið heppnaðist ljómandi vel.  Úrslitin voru reyndar óvænt, maður var ekki búinn að reikna með Rússlandi svo ofarlega.  Það hefði verið gaman að sjá ísland í einu af 10 efstu en ég var búin að veðja á 12 sætið, þannig að ég var ekki mjög langt frá því.  Ég átti mér ekkert sérstakt uppáhaldslag í keppninni en fannst Spánn og Frakkland senda skemmtilega flippuð atriði.

Við fórum svo í lautarferð með afganga á Klambratúnið á sunnudeginum.  Setti inn nokkrar myndir frá helginni.

Hér er uppskrift að auðveldum tapasrétti:

1-2 rauð chilialdin smátt söxuð og 3 kramdir hvítlauksgeirar eru mýkt í jómfrúarólívuolíu á pönnu eða í ofni.  Síðan er einum pakka af frosnum, afþýddum risarækjum skellt út í og látið hitna í gegn.  Þá er rétturinn tilbúinn.  Gott er að bera hann fram með góðu brauði og hvítvíni.  Við höfum líka oft chili og blekpasta með sem fæst í Manni lifandi (svart og rautt saman í pakka).  Mjög sterkt og hressandi.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband