Andlát í sumarfríi

Pabbi dó daginn eftir að ég bloggaði síðast.  Það var 85 ára afmælisdagurinn hans, 16. júní.  Hann sagðist eiginlega vera kominn á annan stað og að hann ætlaði að halda upp á daginn þar.  Ég vona að hann hafi fengið góða veislu með liðnum ættingjum og vinum.

Ég var nýlent í Stokkhólmi þegar ég fékk fréttina.  Við vorum búin að tékka okkur inn á hótelið og nýfarin út í Saluhallen á Medborgarplatsen til að kaupa okkur samloku.  Ég trúði því einhvernvegin að hann ætti aðeins meira eftir, myndi ná sér upp úr þessari lungnabólgu eins og þeirri sem hann fékk stuttu áður, þó flaug það um huga mér þegar ég kyssti hann á kinnina og klappaði honum sofandi daginn áður að það gæti verið í síðasta sinn sem ég sæi hann á lífi.  Maður veit aldrei hvenær endalokin geta orðið.

Það var óþægilegt að vera fjarri mömmu og systrunum og ég svaf illa fyrstu þrjár næturnar, var einnig í meira símasambandi en annars.  Þrátt fyrir þetta áttum við góða daga í Svíþjóð.  Við vorum systurnar búnar að sjá til þess að alltaf yrðu a.m.k. tvær okkar heima til að aðstoða mömmu ef til þessa kæmi og að við værum ekki fjarri lengi í senn.  Það var netsamband á hótelinu þannig að ég gat sent smá punkta fyrir ræðu prestsins.  Við komum síðan heim í tæka tíð fyrir kistulagningu og undirbúning erfidrykkju.

Við skoðuðum okkur um í Stokkhólmi, aðallega í Gamla Stan og á Djurgarden eyju.  Maður gæti alveg eytt 2-3 dögum á Djurgarden, við skoðuðum þar Vasa safnið, Junibacken barnasögusafn og leikhús sem er mjög skemmtilegt fyrir krakka og Gröna Lund tívolíið.  Við áttu hins vegar eftir að skoða bæði Skansen og dýragarðinn en það bíður betri tíma.  Við fórum einnig í 3 daga út úr bænum í lítið orlofshús í orlofsþorpinu Lysingbadet í Skerjagarðinum rétt hjá Vastervik.  Litla dóttir mín 4ra ára sagði þegar við vorum í gönguferð milli skerjanna: "Mamma, við skulum koma hingað aftur, hér er svo fallegt".  Það væri ég alveg til í að gera og vera þá lágmark eina viku. 

Við fórum í Astrid Lindgren garðinn við Vimmerby en það er rúmlega hálftíma akstur frá Vastervik.  Manni veitir sko ekkert af 6 klst. þar.  Við skemmtum okkur ekkert síður en krakkarnir, þar voru leiksýningar í gangi allan daginn og hittum við bæði Emil í Kattholti og Línu Langsokk, prófuðum ýmsar rennibrautir, tróðum okkur inn í pínulítil hús eða kíktum á glugga.  Við vorum í um 5 1/2 klst. en ég hefði alveg verið til í smá kaffisopa í lokin á einhverju kaffihúsinu og að hafa tíma til að kíkja í dótabúðina.  Það er ekki sérlega ódýrt þarna inn kostaði rúmlega 6000 kr. ísl. fyrir 4-5 manna fjölskyldu en það er vel þess virði á góðum degi eins og við fengum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband