Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Bless, bless

Nýja bloggsíðan mín er: http://blogg.visir.is/matta/

Gleymnir jólasveinar eða ...

Bjössi fékk sjokk í morgun, það var ekkert í skónum í glugganum.  Hurðaskellir er ekki til sagði hann, nánast með tár í augum.  Ég reyndi að hugga hann og sagði að kannski hefði hann tafist vegna ófærðar, "eða fórstu kannski svona seint að sofa?"

Þegar hann fór svo að klæða sig í kuldaskóna steig hann á eitthvað hart.  Auðvitað kom Hurðaskellir útihurðarmegin en ekki inn um glugga.


Minnir örlítið á mömmu og pabba

Ég hugsa að þau hefðu samt frekar beðið mann um að skutla sér Halo .
mbl.is Sjúkleg stundvísi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meira um Helsinki

Pekka Halonen. Tomatoes 1913. Ateneum museum in Finland.Ég byrjaði á því að kíkja aðeins í Ateneum listasafnið í morgun en þar er yfirlitssýning á myndum eftir Pekka Halonen, mjög vel gerðar og flottar myndir.  Tók svo lestina út í Pasila/Böle þar sem ráðstefnuhöllin er.

Eftir hádegismat dreif ég mig í skoðunarferð á vegum verktakafyrirtækisins DESTIA en það er aðalverktakinn í endurbyggingu Hakamaentie hraðbrautar í gegnum borgina en þar er verið að gera 4 mislæg gatnamót á sama tíma, auk hljóðmana og því um líks, og opið fyrir allri umferð á meðan.  Mislægu gatnamótin eru á þremur hæðum, neðst eru lestarteinar, þá kemur hverfisumferðin og efst gnæfir sjálf hraðbrautin, þetta lítur samt ekki eins illa út og það hljómar.

MúmínálfarAð loknum nokkrum fyrirlestrum dreif ég mig í bæinn að kíkja aðeins í búðir.  Mig vantaði einhverjar smágjafir fyrir krakkana og var svo heppin að rekast á fínar gallabuxur fyrir sjálfa mig og þunna sumarúlpu.  Fékk mér svo snarl á kaffihúsi og eyddi restinni af kvöldinu í rólegheitum á hótelinu að búa mig fyrir brottför, því á morgun kveð ég Helsinki, í bili að minnsta kosti.  Það væri gaman að koma hingað einhverntíma með krakkana og kíkja í múmíngarðinn í Naantali en það er víst um 2-3 klst. akstur héðan.  Það er ágætt að vera hér í Helsinki, fólkið er almennilegt og andrúmsloftið afslappað.

 


Helsinki

Ég flaug til Helsinki á laugardaginn til að taka þátt í ráðstefnunni Via Nordica sem hófst í dag.  Eiki kom með mér og við eyddum helginni í að skoða okkur um í borginni.  Við komum hingað seint á laugardaginn að staðartíma því finnarnir eru 3 klst. á undan okkur.  Röltum í bæinn og fórum svo að borða á rússneskum veitingastað "Saslik".  Borðuðum Styrju á meðan tónlistarmenn spiluðu við borðið okkar, bara eins og í bíó.

Í gær hófst dagurinn á kvennahlaupi en við vorum fjórar sem hlupum ... eh hmmm gengum rösklega saman klukkan hálfsex að íslenskum tíma, mjög ferskar og einbeittar, í garði sem er hér rétt við hótelið.  Eftir morgunmat fórum við Eiki út í Suomenlinna eyju og skoðuðum hernaðarmannvirki þar frá 17du öld sem eru á heimsminjaskrá Unesco og fórum inn í kafbát frá 193? og skoðuðum aðalsfólksheimili í anda Jane Austen.  Sigldum svo í land fram hjá litlum eyjum sem litu allar út fyrir að hýsa múmínálfa, fórum svo að skoða rússnesku réttrúnaðarkirkjuna sem var mjög skrautleg og síðan dómkirkuna sem var öllu hóflegri. 

Helsinki dómkirkjaÍ eftirmiðdaginn þurfti ég að fara að skrá mig á ráðstefnuna en þaðan fórum við að skoða Temppeliaukio kirkjuna sem er höggvin inn í klett og vorum svo heppin að þar stóð yfir tónleikaæfing.  Við ætluðum á finnskan veitingastað um kvöldið en vorum eiginlega hálfþreytt eftir daginn og enduðum á ítölskum stað í nágrenni hótelsins.

Temppeliaukkio steinkirkjanÍ morgun röltum við aðeins um bæinn áður en ég fór á ráðstefnuna.  Eiki fór svo út á flugvöll um hádegið og flaug heim.  Ég heyrði í honum áðan en hann var þá búinn að sækja krakkana sem voru spennt að skoða nýja dótið.  Ég rölti milli fyrirlestra í dag og reyndi að velja úr það sem kæmi mér að mestum notum í vinnunni.  Tók svo lestina heim á hótel um fimmleytið og var þá orðin svo þreytt að ég nennti ekki að kíkja í búðir og þá er nú ástandið slæmt LoL.  Við vorum síðan boðin í móttöku í ráðhúsinu þar sem við fengum léttan kvöldverð og drykki.  Var svo heppin að H&M var opið á leiðinni heim svo ég notaði tækifærið og keypti nærföt og sokka fyrir krakkana eins og ég hafði hugsað mér.

Fór svo inn á hótel að hvíla mig og glápa á húsmæður á barmi örvæntingar (Desperate housewifes og Stepford wifes).


Fjölskyldujúróvisjónteiti

Við hittumst þrjár systur ásamt fjölskyldum á laugardagskvöldið og horfðum á júróvisjón af gömlum vana. Ákváðum samt að grilla ekki heldur settum saman spænsk-ítalska veislu í anda þess sem við hefðum kannski gert ef við hefðum stórfjölskyldan farið saman til Ítalíu í eins og stóð til í fyrra.  (Grillið okkar er líka orðið ónýtt og satt að segja er ég að hugsa um að kaupa ekki annað gasgrill, er orðin hálfleið á að hafa þennan sóðalega hlunk á veröndinni).

Við gerðum okkur sérstaka ferð í Mosfellsbæinn til að kaupa brauð í góða, flotta bakaríinu þeirra.  Adda og Stefanía mættu svo til okkar Þórdísar um tvöleytið, á meðan karlpeningurinn var sendur á flugsýningu.  Við dúlluðum okkur svo við að útbúa ítalskar snittur, tapas, sangríu og panna cotta.  Svo skreyttum við allt í fánalitunum á milli þess sem við puntuðum okkur og nutum veðurblíðunnar á veröndinni. Hrabba kom með strákana um fimmleytið þegar Hilmar fór í boltann og dembdi sér með okkur í lokaundirbúninginn.  Eiki keypti síðan barnabox frá McDóna handa krökkunum með tilheyrandi einnota umhverfismengandi drasli sem börn eru svo dásamlega hrifin af.

Kvöldið heppnaðist ljómandi vel.  Úrslitin voru reyndar óvænt, maður var ekki búinn að reikna með Rússlandi svo ofarlega.  Það hefði verið gaman að sjá ísland í einu af 10 efstu en ég var búin að veðja á 12 sætið, þannig að ég var ekki mjög langt frá því.  Ég átti mér ekkert sérstakt uppáhaldslag í keppninni en fannst Spánn og Frakkland senda skemmtilega flippuð atriði.

Við fórum svo í lautarferð með afganga á Klambratúnið á sunnudeginum.  Setti inn nokkrar myndir frá helginni.

Hér er uppskrift að auðveldum tapasrétti:

1-2 rauð chilialdin smátt söxuð og 3 kramdir hvítlauksgeirar eru mýkt í jómfrúarólívuolíu á pönnu eða í ofni.  Síðan er einum pakka af frosnum, afþýddum risarækjum skellt út í og látið hitna í gegn.  Þá er rétturinn tilbúinn.  Gott er að bera hann fram með góðu brauði og hvítvíni.  Við höfum líka oft chili og blekpasta með sem fæst í Manni lifandi (svart og rautt saman í pakka).  Mjög sterkt og hressandi.


Árshátíð

Árshátíð  2008Við komumst saman á árshátíð eftir allt saman.  Mikið gaman, mikið fjör.  Við fórum reyndar heim að loknu borðhaldi til að sækja krakkana, þorðum ekki að láta Þórdísi gista ef hún færi nú að rjúka aftur upp í hita.  Þau fengu að vera í heimsókn hjá Lauju frænku og hennar fjölskyldu á meðan.

Það er spáð fínu veðri um helgina svo við stefnum að því að njóta þess til hins ítrasta.  http://www.vedur.is/

Við fórum með Bjössa á skíði og Þórdísi á sleða í Ártúnsbrekkuna fyrir u.þ.b. tveimur vikum síðan.  Bjössi var alveg ótrúlega fljótur á ná tökum á diskalyftunni.  Hann fór síðan með pabba sínum upp í Bláfjöll nokkrum dögum síðar.  Þar sá hann menn í fallhlífum og spurði strax hvort þeir gætu ekki leigt svona.Grin

GrettirSíðasti balletttíminn hennar Þórdísar þennan veturinn er á morgun.  Önninni lýkur svo með ballettsýningu í Borgarleikhúsinu í næstu viku, afmælisvikunni hennar, en hún er að verða fimm ára sú stutta.  Ég held að efst á óskalistanum sé Grettir, eitthvað um Gretti eða með myndum af Gretti.  Hún er alveg með hann á heilanum þessa dagana.  Teiknar heilu myndasögurnar í leikskólanum um Gretti og félaga.  Afmælistertan á að vera hvít súkkulaðiterta, með mynd af Gretti ofaná, nammi og sleikipinnum.


Lasleiki

Þórdís var heima í dag með kvefpest og hita og það er ekki nema hálfur mánuður frá því að hún reis úr rekkju eftir flensu.  Ég var heima hjá henni í mestallan dag, en Eiki skaust heim um miðjan daginn svo ég kæmist aðeins niðrí vinnu.  Ég vona að hún verði hitalaus á morgun sem er reyndar ekki líklegt í ljósi þess að hún er nú með 39,3°C.  Ég var nefnilega farin að hlakka til að komast á árshátíð á morgun með kallinn með mér, búin að redda pössun og krakkarnir farin að hlakka til að fá að gista hjá Lauju frænku sinni.

Litlu naggrísaungarnir tveir, þeir Snar og Snöggur, fluttu að heiman í gær.  Krakkarnir fóru með í gæludýrabúðina til að kveðja þá.  Það var dálítið tregablandin kveðjustund en þau vissu frá upphafi að þannig myndi þetta ævintýri enda.  Snar og Snöggur fóru í búr með tveimur öðrum ungum á svipuðum aldri og virtust una sér vel.  Ég var búin að lofa Bjössa því að við myndum kíkja til þeirra í búðina í dag en svo vildi hann frekar fara í tölvuleik, sagðist bara ætla að heimsækja þá á morgun, og Þórdísi er alveg sama, bara ánægð með Lottu gömlu.

"Mamma við verðum að láta Lottu eignast unga á morgun", sagði hún reyndar rétt í þessu, kannski ekki alveg sama.


Fjölgun í fjölskyldunni

Litla fjolskyldanÁ bolludaginn fæddust hjá okkur tveir litlir naggrísir sem eru því þriggja vikna gamlir í dag.  Við vitum ekki enn fyrir víst hvers kyns þeir/þau eru en við höfum kallað þá Snaran og Snöggan eftir litlu íkornunum úr Andabæ því þeir eru svipaðir á litinn.  Þeir verða bara hjá okkur í eina viku til viðbótar því þá verða þeir víst kynþroska og við ætlum ekki að stuðla að frekari fjölgun.  Þeir fara í gæludýrabúðina í hverfinu okkar.

Tobbi (pabbinn) kom til okkar í september á síðasta ári.  Við kenndum svo í brjósti um hann, því hann virtist svo einmana, og þegar við rákumst á naggrísapæjuna Lottu í nóvember þá ákváðum við að bæta henni við.  Okkur var sagt að líklega væri hún ófrjó því hún væri búin að vera með naggrísakalli í búri frá því að hún hefði orðið nógu gömul til að eignast unga og þar að auki væri hún orðin svo gömul, þá 8 mánaða, að líklega væri gróið fyrir fæðingaropið.  Þetta hljómaði skringilega en við vildum trúa þessu og ákváðum að taka sénsinn.

Ekki leið langur tími þar til daman fór að þykkna og verða ansi matlystug, sat nánast allan daginn með framfæturna á matarskálinni sinni og skrækti á mat.  Þegar hún gat vart lengur troðið sér inn í kofann sinn fórum við með þau bæði til dýralæknis í skoðun.  Það fór ekki á milli mála að Lotta var komin á steypinn.  Gróið fyrir hvað ... Shocking ... enda hló dýralæknirinn þegar hún heyrði það bull.  Fæðinginn gekk þó ljómandi vel, en Tobbi greyið var snarlega sendur í ófrjósemisaðgerð.


Trúariðkun, í stað sjónvarpsgláps kannski?

Já, maður ætti kannski að fara að glugga í biblíuna á kvöldin að loknum fullum vinnudegi, heimilisþvotti, líkamsrækt, tilbúningi holls matar, frágangi í eldhúsi, almennri tiltekt og háttun barna. 

Smá afslöppun um stórhátíðar og helgar gæti kannski líka verið til bóta, en því miður fara þessi frídagar hjá manni oft ansi mikið í þeyting á milli kaffi- og matarboða.

Sem dæmi um týpískan sunnudag hjá mér í gær:  Ég fór á fætur um hálftíu, sem er auðvitað alltof seint.  Fékk mér morgunmat og kaffibolla sem ég gaf mér ekki tíma til að klára, man ekki hversvegna, ætli ég hafi ekki þurft að skeina einhvern Woundering.  Fór síðan í það að ganga frá þvotti vikunnar, finna til föt fyrir sjálfa mig og krakkana, fór síðan að taka til.  Tiltektin færðist síðan yfir í frágang á jólaskrauti, tína skrautið af trénu, taka niður aðventuljósið og ljós úr fjórum gluggum.  Hitaði mér smá fiskafgang í örbylgjunni sem ég gleypti í mig áður en við fórum í heimsókn til mömmu um þrjúleytið en ég var að fara með föt til hennar sem ég keypti fyrir hana í vikunni.  Fórum þaðan í heimsókn til tengdó um fimmleytið.  Eiki hljóp svo inn í búð á heimleiðinni.  Vorum komin heim um hálfsjö.  Ég ákvað þá í stað þess að byrja að elda eins og ég geri flesta daga að gera eitthvað sem mig sjálfa langaði til og fór ein út í gönguferð en tók reyndar niður jólaseríu úti í leiðinni.  Þegar ég kom heim var fjölskyldan að borða tilbúnar kjötbollur hlaðnar aukaefnum, með spagettíi og baunum úr dós.  Fékk mér af óhollustunni með þeim.  Gekk svo frá eftir matinn á meðan Eiki hjálpaði Bjössa með heimalærdóminn.  Gaf fjölskyldunni smá súkkulaði í eftirrétt, naggrísunum salat að borða og náði því að horfa á sunnudagskvöld með Evu Maríu að mestu án truflunar.  Kom Þórdísi í náttfötin, burstaði í henni tennurnar, las fyrir hana og lá svo hjá henni nokkra stund.  Um hálfellefu fór ég niður, horfði á hálfa bíómynd á DVD.  Sofnaði eins og steinn uppúr kl. 12. 

Segi svo einhver að maður sé bara að dúlla sér!  Spurning hvar ég ætti að bæta inn trúariðkuninni LoL


mbl.is Trúariðkun og hjálplegur eiginmaður draga úr streitu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband