Færsluflokkur: Ferðalög

Vinnuferð til Turku

Ég þurfti að skreppa til Turku nýlega vegna vinnu.  Turku er á SV-strönd Finnlands og þar búa tæplega 200 þús. manns.

Flugvélin lenti í Turku rétt fyrir miðnætti.  Þegar ég kom út var um það að velja að fara upp í einu rútuna sem beið eða fara aftast í langa röð fólks sem beið eftir leigubíl í rigningunni.  Ég prófaði aðeins að bíða í röðinni en enginn leigubíll kom svo ég ákvað að taka sénsinn á rútunni, sem var góð ákvörðun.  Rútan keyrði í gegnum eyðilegan bæinn, framhjá verslunarmiðstöðvum og kunnuglegum amerískum keðjubúllum og endaði 10-15 mínútum síðar á aðaltorginu.  Bílstjórinn var svo almennilegur að fara út úr bílnum og benda mér á hvert ég ætti að fara.  Ég þurfti ekki að draga töskuna nema ca. 200 metra og þá var ég komin inn á hótel Centro, lítið og snyrtilegt hótel með góðum morgunmat og almennilegu staffi.

Morguninn eftir rölti ég aðeins um miðbæinn í rigningunni því ég þurfti ekki að mæta á vinnufundinn fyrr en um hádegið.  Þarna er ágætis úrval af verslunum og veitingastöðum.  Ég fór í Casa grande dótabúðina til að velja eitthvað fallegt fyrir börnin sem biðu spennt heima.

Um kvöldið borðuðum við á víkingastaðnum Harald.  Þar fékk ég geitasalat í forrétt, aborra í aðalrétt og rauðvín í leirkrús.  Var of södd fyrir eftirrétt sem er sjaldgæft.  Harald er skemmtilegur staður fyrir túristahópa, maturinn var OK en ekki spennandi.

Daginn eftir fórum við í skoðunarferð á nýja hraðbraut milli Muurla og Lohja en þar hafa verið gerðar ýmsar mótvægisaðgerðir vegna umhverfisins.  Við vorum heppin með veðrið því það hafði létt til.  Vegurinn liggur um fallegt skóglendi og klettabelti þar sem er mikið dýralíf m.a. svokallaðir flugíkornar sem eru á válista í Finnlandi.  Þar hefur t.d. verið gerð sérstök göngubrú lögð jarðvegi fyrir skógardýrin, í stað þess að sprengja burt kletta eru gerð í þá göng til að dýrin komist þar yfir og grannvaxin tré eru sett milli akreina á flugíkornasvæðum til að þeir geti flogið/stokkið yfir veginn.  Ég íslendingurinn var alveg undrandi að sjá þessar ráðstafanir og fór að spjalla um þetta við eina norsku konuna en hún var ekkert hissa og sagði að þetta þekktist í hennar heimalandi.  Hefði nokkrum íslendingi dottið í hug að gera hreindýragöngubrú á Kárahnjúkaveg? Grin

Þegar við komum til baka til Turku keyrði rútan með okkur um bæinn og ein af finnsku vegagerðarkonunum sagði okkur frá því helsta sem fyrir augu bar.  Að því loknu fóru flestir út á flugvöll en ég varð að bíða þar til næsta morgun.  Ég naut þess því að slaka aðeins á.  Gekk niður að dómkirkjunni sem stendur á bakka árinnar Aura þar er mjög fallegt. Ég kíkti síðan í nokkrar búðir í miðbænum, Marimekko, Aarikka, Gina Tricot, hið klassíska H&M og endaði í Stockmann vöruhúsinu þar sem ég fékk mér kvöldmat.

Eldsnemma morguninn eftir, eða kl. 3 að nóttu að íslenskum tíma, fór ég á fætur, í morgunmat og síðan út á flugvöll.  Flugvöllurinn í Turku er mjög fábrotinn, ein pínulítil fríhafnarbúð og smá kaffitería, meira eins og innanlandsflugvöllur.  Ég var mætt stundvíslega út á flugvöll tveimur tímum fyrir brottför, en starfsmennirnir mættu klukkutíma síðar.  Ohh ég hefði getað sofið klukkustund lengur. Gasp

Ég þurfti síðan að bíða á Arlanda flugvelli í Svíþjóð í 5 klst.  Ég lenti einmitt í því eins og margir íslendingar upp úr síðustu mánaðamótum að fá ekki pening úr hraðbanka.  Ég botnaði ekkert í því hvað var að gerast og starfsfólkið skildi ekkert heldur, töldu að ég væri bara búin með peninginn, sem ég vissi fyrir víst að var ekki.  Sem betur fer tók veitingastaður við kortinu svo ég gat keypt mér máltíð.  Hefði það ekki gengið hefði ég þurft að láta mér nægja banana fyrir klinkið.


Sumarið 2008

Ég hef verið ansi pennalöt, ehemm takkalöt, að undanförnu.  Það er reyndar bara búið að vera svo mikið að gera eftir sumarfríið.

Við fórum hringinn í kringum landið í sumarfríinu á 17 dögum.  Byrjuðum á Hólum í Hjaltadal og Hofsósi, vorum svo í viku á Akureyri í íbúð og skoðuðum okkur um m.a. á Siglufirði, Ólafsfirði og Hjalteyri.  Síðan fórum við til Vopnafjarðar, en þangað höfðum við ekki komið áður, og gistum í tvær nætur í bændagistingu.  Hallormsstaður var næsti áfangastaður en þar vorum við í litlu tjaldi í þrjár nætur innan um hjólhýsi, fellihýsi og tjaldvagna.  Skruppum út á Reyðarfjörð og alla leið niður í Viðfjörð, búúú Alien, sáum reyndar engin Viðfjarðarundur bara geitung.  Eftir sól og sælu á NA- og A-landi fórum við í þokuloft á Hornafirði og gistum þar í tvær nætur.  Fórum út að borða á afmæliskvöldinu mínu, dýrindis humarpizzu.  Á afmælisdaginn fórum við inn í Lón.  Sumarfrí 2008 1 323Ég hafði meðferðis kökur í nesti en samt fattaði enginn hvaða dagur væri Shocking.  Enduðum þann góða dag á heimsókn inn að Hoffellsjökli.  Eftir góða dvöl á Höfn fórum við á Kirkjubæjarklaustur þar sem haldið var ættarmót afkomenda Kristófers og Rannveigar (meira um það á http://www.mosar.is/).  Þar náðum við að tjalda og grilla Hornafjarðarhumar áður en rigning og rok skullu á á föstudagskvöldinu.  Á laugardeginum fór ættarmótið hins vegar vel fram í ljómandi góðu veðri.  Eftir þessa löngu ferð brunuðum við heim með smástoppi í Samgöngusafninu á Skógum og það var gott að sofna í eigin rúmi það kvöld.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband