10.6.2008 | 20:59
Meira um Helsinki
Ég byrjaði á því að kíkja aðeins í Ateneum listasafnið í morgun en þar er yfirlitssýning á myndum eftir Pekka Halonen, mjög vel gerðar og flottar myndir. Tók svo lestina út í Pasila/Böle þar sem ráðstefnuhöllin er.
Eftir hádegismat dreif ég mig í skoðunarferð á vegum verktakafyrirtækisins DESTIA en það er aðalverktakinn í endurbyggingu Hakamaentie hraðbrautar í gegnum borgina en þar er verið að gera 4 mislæg gatnamót á sama tíma, auk hljóðmana og því um líks, og opið fyrir allri umferð á meðan. Mislægu gatnamótin eru á þremur hæðum, neðst eru lestarteinar, þá kemur hverfisumferðin og efst gnæfir sjálf hraðbrautin, þetta lítur samt ekki eins illa út og það hljómar.
Að loknum nokkrum fyrirlestrum dreif ég mig í bæinn að kíkja aðeins í búðir. Mig vantaði einhverjar smágjafir fyrir krakkana og var svo heppin að rekast á fínar gallabuxur fyrir sjálfa mig og þunna sumarúlpu. Fékk mér svo snarl á kaffihúsi og eyddi restinni af kvöldinu í rólegheitum á hótelinu að búa mig fyrir brottför, því á morgun kveð ég Helsinki, í bili að minnsta kosti. Það væri gaman að koma hingað einhverntíma með krakkana og kíkja í múmíngarðinn í Naantali en það er víst um 2-3 klst. akstur héðan. Það er ágætt að vera hér í Helsinki, fólkið er almennilegt og andrúmsloftið afslappað.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.