9.6.2008 | 21:45
Helsinki
Ég flaug til Helsinki á laugardaginn til að taka þátt í ráðstefnunni Via Nordica sem hófst í dag. Eiki kom með mér og við eyddum helginni í að skoða okkur um í borginni. Við komum hingað seint á laugardaginn að staðartíma því finnarnir eru 3 klst. á undan okkur. Röltum í bæinn og fórum svo að borða á rússneskum veitingastað "Saslik". Borðuðum Styrju á meðan tónlistarmenn spiluðu við borðið okkar, bara eins og í bíó.
Í gær hófst dagurinn á kvennahlaupi en við vorum fjórar sem hlupum ... eh hmmm gengum rösklega saman klukkan hálfsex að íslenskum tíma, mjög ferskar og einbeittar, í garði sem er hér rétt við hótelið. Eftir morgunmat fórum við Eiki út í Suomenlinna eyju og skoðuðum hernaðarmannvirki þar frá 17du öld sem eru á heimsminjaskrá Unesco og fórum inn í kafbát frá 193? og skoðuðum aðalsfólksheimili í anda Jane Austen. Sigldum svo í land fram hjá litlum eyjum sem litu allar út fyrir að hýsa múmínálfa, fórum svo að skoða rússnesku réttrúnaðarkirkjuna sem var mjög skrautleg og síðan dómkirkuna sem var öllu hóflegri.
Í eftirmiðdaginn þurfti ég að fara að skrá mig á ráðstefnuna en þaðan fórum við að skoða Temppeliaukio kirkjuna sem er höggvin inn í klett og vorum svo heppin að þar stóð yfir tónleikaæfing. Við ætluðum á finnskan veitingastað um kvöldið en vorum eiginlega hálfþreytt eftir daginn og enduðum á ítölskum stað í nágrenni hótelsins.
Í morgun röltum við aðeins um bæinn áður en ég fór á ráðstefnuna. Eiki fór svo út á flugvöll um hádegið og flaug heim. Ég heyrði í honum áðan en hann var þá búinn að sækja krakkana sem voru spennt að skoða nýja dótið. Ég rölti milli fyrirlestra í dag og reyndi að velja úr það sem kæmi mér að mestum notum í vinnunni. Tók svo lestina heim á hótel um fimmleytið og var þá orðin svo þreytt að ég nennti ekki að kíkja í búðir og þá er nú ástandið slæmt
. Við vorum síðan boðin í móttöku í ráðhúsinu þar sem við fengum léttan kvöldverð og drykki. Var svo heppin að H&M var opið á leiðinni heim svo ég notaði tækifærið og keypti nærföt og sokka fyrir krakkana eins og ég hafði hugsað mér.
Fór svo inn á hótel að hvíla mig og glápa á húsmæður á barmi örvæntingar (Desperate housewifes og Stepford wifes).
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 21:46 | Facebook
Athugasemdir
Hafðu það sem allra best í Finnlandinu Matta mín.....
Lauja, 10.6.2008 kl. 08:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.