Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
7.12.2007 | 12:01
Skemmtilegt jóladagatal á netinu
Þar sem í dag er tiltektardagur í vinnunni og jólasukk á eftir er ég bara öll að komast í jólaskap. Ætli maður klári svo ekki bara jólagjafainnkaupin í framhaldinu
http://www.jonolafur.is/dagatal.html
26.11.2007 | 10:34
Grýla
Við fórum með krakkana í jólaþorpið í Hafnarfirði í gær. Það var voða fjör, Gunni og Felix að syngja og Gluggagægir og Grýla komu í heimsókn, svo var dansað í kringum jólatréð. Nema börnin mín þau vildu ekki dansa. Ég fór að syngja með jólalög, þá leit Bjössi á mig alveg forviða og spurði: "Af hverju ertu að syngja mamma". Krakkarnir voru ekkert hrædd við Grýlu enda var hún lítil, horuð og aumingjaleg, og minni en Gluggagægir . Hún virðist eitthvað vera að skreppa saman með árunum kellingin.
Við sáum Grýlu á sama stað í fyrra en hún var þá að bjóða börnunum upp á hákarl. Þórdís vildi helst ekki sjá hana í gær því hún var svo hrædd um að Grýla myndi aftur bjóða upp á hákarl. Þegar maður er lítill þorir maður líklega ekki að segja nei takk við svona ógnvænlega skessu.
Við keyptum svo jólarandalínur og brunuðum í kaffi til tengdó.
5.11.2007 | 10:29
Þrjár systur í haustfríi
Þrjár af okkur systrum notuðum tækifærið í haustfríi barnanna til að skreppa saman út úr bænum og styrkja stórfjölskylduböndin. Við fengum á leigu gamlan bústað í Þverárhlíðinni, fylltum bílana af köllum, börnum, mat og drykk og brunuðum svo af stað, naggrísinn fór meira að segja með, í hundabúri.
Við skoðuðum Landnámssýninguna á Landnámssetrinu í Borgarnesi sem var mjög áhugavert, þar er líka hægt að skoða aðra sýningu, Egilssýninguna en við ákváðum að bíða með hana þar til næst. Gott að hafa ástæðu til að koma aftur á þennan vel heppnaða stað.
Graskerssúpa á veitingastaðnum á fimmtudeginum var mjög góð og villisveppasúpa á laugardeginum ekki síðri, heimabakað brauð með og ilmandi kaffi á eftir. Umhverfið er mjög skemmtilegt en veitingahúsið mun vera í elsta húsi bæjarins sem hefur verið gert smekklega upp. Eitthvað annað en að sitja yfir sveittum og subbulegum borgurum á bensínstöð, hugsanlega fljótlegra en ekki nærri eins skemmtilegt. Safnbúðin býður þar að auki upp á skemmtilega hluti, m.a. frá hinum íslenska bændamarkaði (farmers market).
Á föstudeginum fórum í sund á Kleppjárnsreykjum. Þar er ágætis sundlaug og heitur pottur og þó nokkuð af korkleikföngum og boltum fyrir börnin. Við fengum okkur hins vegar ekki Jónsborgara staðarins, veltum því fyrir okkur hvort Jón væri þar hakkaður í brauði. Fórum að sundferð lokinni að Hvanneyri og kíktum inn í Ullarselið. Keypti hlýja og fallega húfu handa Bjössa með hestamynstri og hét því að drífa mig á prjónanámskeið eftir áramót. Við fórum svo aðeins inn í Kollubúð og fengum okkur pulsu og kók. Þar fást líka hlý og mjúk ullarnærföt á börn sem stinga ekki og eru framleidd af konu í sveitinni, ullarnærbolir eins og ég gekk í sem barn. Ég fékk þar slíka nærboli fyrir bæði börnin, ullarnærbuxur fyrir Þórdísi og kraga. Ég keypti þarna ullarnærbuxur handa henni fyrir nokkrum árum, þær eru í tveggja ára stærð en hún hefur verið að nota þær alveg fram á þennan dag, kominn tími til að endurnýja.
Að loknum ullarkaupum fórum við í nýja fjósið og fengum leyfi fjósamannsinns til að kíkja inn. Bjössi og Þórdís voru himinlifandi yfir því að fá að skoða kálfana og þeir virtust ekki hafa minna gaman af að skoða þau, enda þurftu þau að vera ansi snör í snúningum stundum að forðast langar og blautar kálfatungur. Skömmu síðar bættust tvær fjósakonur í hópinn og kýrnar fengu heyskammtinn sinn, verst að fjósakötturinn sást hvergi. Hann hefur líklega verið að eltast við mýs.
Á laugardeginum fengu krakkarnir að sníkja nammi að amerískum bíómyndahætti, grikk eða gott, algjörlega þeirra hugmynd, en við spiluðum með og létum þau hafa svolítið fyrir því að fá nammi í poka. Þau urðu að syngja fyrir okkur, dansa eða leika einhverjar listir, það gekk ljómandi vel Hinrik spilaði meira að segja á gítar. Um kvöldið flamberuðum við piparsteik, bökuðum kartöflur og drukkum rauðvín, nema börnin sem fengu hamborgara og gos, nammi í skál fyrir alla á eftir. Poppuðum svo og horfðum á vídeó.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 10:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.10.2007 | 10:22
Konur yfir fertugt
Ég fékk þennan sendan í morgun frá vinkonu minni og ákvað að láta hann flakka til að gleðja konur eins og mig, yfir fertugu.
Eftir því sem ég eldist, met ég mest konur yfir fertugt og hér eru nokkrar ástæður fyrir því:
Kona yfir fertugt mun ekki vekja þig um miðja nótt og spyrja þig "hvað ertu að hugsa?" Henni gæti ekki verið meira sama.Ef kona yfir fertugt vill ekki horfa á leikinn með þér vælir hún ekki yfir því. Hún gerir eitthvað sem hana langar til og yfirleitt er það áhugaverðara en leikurinn.
Konur yfir 40 eru virðulegar í framkomu. Þær fara sjaldan í öskurkeppni við þig í óperunni eða á fínum veitingastað. Nema þú eigir það skilið, þá hika þær ekki við að skjóta þig ef þær halda að þær komist upp með það.Eldri konur eru örlátar á hrós, oft óverðskuldað. Þær vita hvað það er að vera ekki metin að verðleikum.
Konur verða skyggnar með aldrinum. Þú þarft aldrei að viðurkenna misbresti þína fyrir þeim.
Þegar þú getur litið framhjá einni eða tveimur hrukkum er kona yfir 40 langtum kynþokkafyllri en yngri kynsystur hennar.
Eldri konur eru hreinar og beinar. Þær segja þér eins og skot að þú sért asni ef þú hagar þér sem slíkur. Þú þarft aldrei að fara í grafgötur með hvar þú hefur þær.
Já, við dásömum konur yfir fertugt af mörgum ástæðum. Því miður er það ekki gagnkvæmt. Því fyrir hverja glæsilega, smarta og vel greidda konu yfir fertugt, er sköllóttur, vambmikill forngripur í gulum buxum gerandi sig að fífli fyrir 22ja ára gengilbeinu. Konur, ég biðst afsökunar.Til allra þeirra karla sem segja; "Afhverju að kaupa kúna þegar þú getur fengið mjólkina frítt?" þá eru hér nýjar upplýsingar: Nú á tímum eru 80% kvenna á móti giftingum. Hvers vegna? Vegna þess að konur gera sér grein fyrir að það borgar sig ekki að kaupa heilt svín þótt þær langi í smá pylsu!
Andy Rooney
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 10:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.10.2007 | 12:25
Brúðkaupsafmæli
Við hjónin eigum 8 ára brúðkaupsafmæli í dag. Við gengum í það heilaga á sólríkum haustdegi í Þingvallakirkju. Af þessu tilefni fórum við út að borða á Einar Ben sl. laugardag. Við fengum þar mjög góðan mat og þjónustu og förum áreiðanlega þangað aftur. Við borðuðum steiktan saltfisk með rúsínumauki og drukkum Kanonkop rauðvín sem smellpassaði með. Í eftirrétt fengum við heita súkkulaðiköku og skyr créme brullé, namm. Fórum síðan á hótel Nordica og sátum með freyðivín við arineld langt fram á nótt.
Það féll í minn hlut að taka á móti litlu gaurunum eftir skóla í gær. Ég ákvað líka að sækja Þórdísi strax ef veðrið skyldi versna. Ég átti til stamp af sænskum piparkökum sem var keyptur um helgina og Bjössi vissi um glassúr í túbum uppi í efstu hillu í eldhúsinu. Svo ég lét þau fá það verkefni að skreyta piparkökur. Þau voru ótrúlega róleg lengi að dunda við að skreyta sem kom sér vel fyrir mig því ég var með heimaverkefni úr vinnunni. Ég hitaði síðan fyrir þau kakó og þau byrjuðu að horfa á jólamynd. Sú sæla entist þó ekki lengi því eftir smástund voru þau búin að tjalda á stofugólfinu, tína allar sængur, teppi og kodda inn í tjaldið og komin í gamnislag.
16.9.2007 | 12:15
Svona er lífið bara
Þórdís byrjaði í ballett í gær. Við höfum oft lesið saman bókina um Albertínu ballerínu sem henni þykir mjög skemmtileg. Hún var hálfpartin utan við sig í tímanum, hefur líklega þótt það hálfóraunverulegt að vera sjálf í sporum Albertínu. Hún horfði eins og álfur út í loftið á meðan hinar fóru í fyrstu position og plié. Það verður forvitnilegt að sjá hvernig henni mun líka þetta. Ætli hún hafi ekki líka verið hissa á því að kennarinn væri ekki í gulum blúndukjól eins og fröken Lillý.
Við fórum á hundasýningu í gær alveg óvart þegar við skruppum í Garðheima að kaupa blóm og naggrísafóður. Þórdís sagði í hvert sinn sem hún sá nýja hundategund: "Mig langar í svona hund". Hún fékk gefins eintak af hundablaði og hélt áfram suðinu heima. Mig langar í svona hund, og svona hund og ...
Ég sagði við hana hvað hún myndi nú gera þegar hundurinn þyrfti að pissa og kúka. Ég myndi bara setja hann út í garð sagði hún. Þá sagði ég við hana að fljótlega yrði garðurinn allur út í hundaskít og þá þyrfti að fara út með skóflu að moka löllunum upp í poka og setja í ruslatunnuna. Því svaraði hún: "Mamma, svona er lífið bara".
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 12:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.9.2007 | 13:40
Litli grís
Það fjölgaði í fjölskyldunni í síðustu viku. Hann fékk nafnið Tobbi og er fjögra mánaða naggrís. Það er mikil ánægja með gæludýrið meðal barnanna, stundum heldur mikil. Hann var kominn inn í dúkkuhúsið um daginn með bleika sæng og annað skipti hafði Þórdís byggt fyrir hann kofa úr lego kubbum, sem var eiginlega bara þröngt rör, og svo var hún að reyna að ýta honum þangað inn. Hann Tobbi litli er sem betur fer skapgóður og þolinmóður grís. Hann gefur frá sér lágt kurr ef honum líður vel en skrækir þegar honum fer að blöskra meðferðin, en hann bítur sem betur fer ekki. Ég er í fullri vinnu við það á kvöldin að fylgjast með því að allt sé í lagi hjá honum greyinu.
Bjössi skrifaði sögu um naggrísinn í skólanum og teiknaði mynd af sér og Tobba. Hann var sjálfur risavaxinn á myndinni í blárri peysu og með rosa vöðva en grísinn líkari randaflugu.
Ég var að vona að með tilkomu gríssins myndi Þórdís hætta að suða stöðugt um að fá hund, en nei því miður ekki alveg. Ég ætla samt að reyna að halda það út að vera hundlaus í 3 ár til viðbótar.
4.9.2007 | 13:34
Gaman hjá tannsa
Þeir sem hafa gaman af monsieur Clouseau kíkið á þetta:
http://www.youtube.com/watch?v=zM9-3HP62FM&NR=1
31.8.2007 | 12:46
Myndir frá ættarmóti niðja Guðmundar og Þórunnar
Þriðja ættarmót niðja Guðmundar Eyjólfssonar og Þórunnar Jónsdóttur frá Þvottá í Álftafirði, Geithellnahreppi, var haldið síðastliðinn laugardag. Ég setti inn nokkrar myndir sem ég tók þá. Ég hef því miður ekki nöfn allra, en þið ættingjar mínir sem villist inn á þessa síðu megið gjarnan hjálpa mér að bæta úr því með athugasemdum.
Hér er slóð inn í myndaalbúmið: http://matta.blog.is/album/AEttarmotidiagust2007/
Af þessu tilefni set ég hér inn upplýsingar um ættir okkar Eiríks, foreldra okkar, ömmur og afa:
Matthildur Bára Stefánsdóttir f. 24. júlí 1964 í Reykjavík og Eiríkur Björnsson tannlæknir, f. 6.des. 1959 í Reykjavík. Börn okkar eru Björn Ívar, f. 14. júní 2000 í Reykjavík og Þórdís Matthea, f. 19. mars 2003 í Reykjavík.
Ætt Matthildar:
Pabbi: Stefán Guðmundsson fv. framkvæmdastjóri í Reykjavík, f. 16. júní 1922 að Starmýri í Álftafirði, Geithellnahreppi, d. 16.6.2007.
Afi: Guðmundur Eyjólfsson bóndi Þvottá f. 20. sep. 1889 í Kambshjáleigu í Hamarsfirði við Djúpavog,d. 2.9.1975.Amma: Þórunn Jónsdóttir húsfreyja f. 5. sep. 1888 á Rannveigarstöðum í Álftafirði, d. 26.11.1956.
Fósturforeldrar pabba voru:Árni Antoníusson bóndi á Hnaukum, f. 26. ág. 1877 í Tunguhlíð í Álftafirði, d. 16.10.1935.
Björg Jónsdóttir húsfreyja á Hnaukum, f. 13. júní 1870 í Hvalsnesi í Lóni, d. 4.5.1963.Mamma: Matthea Jóhanna Jónsdóttir listmálari, f. 7. júlí 1935 á Þverá á Síðu í V- Skaft.
Afi: Jón Guðmundsson verkamaður í Reykjavík, f. 17. maí 1896 á Kvennabrekku í Dölum , d. 16.9.1968.Amma: (Jóhanna) Matthildur Kristófersdóttir húsfreyja, saumakona, f. 6. des. 1906 á Þverá á Síðu, d. 10.10.1983.
Ætt Eiríks:Faðir: Björn Eiríksson skrifstofumaður í Reykjavík, f. 16. okt. 1931 í Neskaupstað, d. 26.10.2005.
Afi: Eiríkur Björnsson læknir í Neskaupsstað og síðar í Hafnarfirði, f. 15.6.1898 í Karlsskála í Reyðarfirði, d. 10.1.1993.Amma: Anna Oddný Einarsdóttir húsfreyja í Neskaupsstað og síðar í Hafnarfirði, f. 5.10.1903 á Hafranesi í Reyðarfirði, d. 1.5.1988.
Móðir: Hjördís Halldórsdóttur hjúkrunarfræðingur í Reykjavík, f. 4. apríl 1931 á Arngerðareyri í Nauteyrarhreppi.Afi: Halldór Jónsson búfræðingur, bóndi á Arngerðareyri í Nauteyrarhreppi, f. 28.2.1889 í Grasi við Þingeyri, d. 24.7.1968.
Amma: Steinunn Guðrún Jónsdóttir húsfreyja á Arngerðareyri í Nauteyrarhreppi, f. 5.3.1894 að Auðshaugi Barðaströnd, d. 7.9.1962.
(Myndin af okkur var tekin á Ljósmyndastofunni Svipmyndum af Fríði Eggertsdóttur ljósmyndara í febrúar 2005).
Vinir og fjölskylda | Breytt 4.9.2007 kl. 13:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.8.2007 | 09:14
Lykt af hausti
Jæja, þá fer maður að komast í gang aftur eftir sumarleyfi.
Við fórum með krakkana á menningarnóttina. Lögðum bílnum við Kjarvalsstaði og gengum alla leið niður í Aðalstræti með viðkomu á ýmsum stöðum. Krakkarnir voru orðin svo þreytt eftir þetta ferðalag að við tókum strætó til baka og kíktum aðeins á tónleikana á túninu og í fordrykk hjá Hröbbu áður en við fórum heim.
Bjössi er byrjaður í skólanum aftur. Við fórum í vikunni í Skólavörubúðina að kaupa stílabækur, blýanta og fleira sem vantaði. Mest fannst honum þó spennandi að fá sinn eigin vasareikni, samlokuvasareikni. Hann fór hjólandi í skólann í morgun með Kjartani vini sínum. Fyrsta skipti sem hann fer án foreldrafylgdar í skólann. Hann var aldrei þessu vant mjög spenntur að leggja af stað. Því miður er ekki búið að ráða neitt starfsfólk í skólaselið þannig að við erum í hálfgerðu vandræðapúsli með eftirmiðdagana. Við skiptum því reyndar á milli okkar tvennir foreldrar að sækja drengina til að dreifa álaginu. Vonandi fer þetta mál að leysast.
Svo er mannekla á leikskólanum hennar Þórdísar líka en senda þurfti 5 börn heim af deildinni hennar í fyrradag vegna veikinda starfsfólks. Maður getur því hvenær sem er átt von á því að þurfa að rjúka óvænt heim úr vinnunni. Þetta hefur auðvitað ekki aðeins áhrif á börnin og foreldrana heldur einnig vinnustaði foreldranna.