Pabbi aftur með lungnabólgu

Við Adda fórum til pabba í dag.  Hann svaf svo fast að við gátum ekki vakið hann.  Hjúkrunarfræðingurinn, hún Gerður, mælti heldur ekki með því.  Hún sagði að hann hefði sofið illa sl. nótt og liðið illa í morgun.  Það er eitthvað vatn í lungunum og hann er með lágan blóðþrýsting.  Það er ekki hægt að gefa honum þvagræsilyf til að losa vatnið úr lungunum því þá gæti blóðþrýstingurinn lækkað enn meira og það er ekki hægt að gefa honum vatn í æð til að jafna blóðþrýstinginn því þá gæti farið meira vatn inn á lungun.  Ekkert að gera nema bíða og sjá til.  Hann er á pensillíni og morfíni og svo fékk hann "friðarpípu" til að létta andardrátt.  Hann hafði ágæta matarlyst í gær en enga í dag.  Það var ekki einu sinni hægt að fá hann til að drekka vatn í dag.  Hann átti mjög erfitt með að tala í gær og Gerður sagði að þannig hefði það líka verið í dag. Hann reynir og reynir en það kemur bara lágt hvísl og hann þreytist fljótt.

Hrabba er að koma heim frá Ítalíu í kvöld og mun útskrifast á morgun á 85 ára afmæli pabba.  Ég vona að hann verði örlítið hressari á morgun svo hann hafi lyst á að bragða á kleinunum sem ég keypti handa honum í dag í tilefni morgundagsins, en ég verð því miður fjarri góðu gamni.  Hann langar mest í kleinur og saltfisk eða saltkjöt, allt þetta sem er svo hollt og gott fyrir hjartað, eða þannig hmmm...


Heimsókn til pabba

Ég skrapp til pabba á spítalann um þrjúleytið í gær.  Hann var mjög slappur, hefur hrakað frá því ég sá hann tveimur dögum fyrr.  Blóðþrýstingurinn var mjög lágur og hann var með vatn í æð til að rétta hann af.  Hann sagði mér frá því að hann hefði skroppið út að kaupa saltfisk en hefði týnt honum á leiðinni heim.  Svo hefði hann verið orðinn villtur og endaði með því að hann lagðist til svefns við lítinn bát.  Þegar hann var orðinn þreyttur á að tala við mig sagði hann: "Jæja, best að ég fari að drífa mig aftur upp á spítala".

Við höfum verið að nota þessa fyrstu daga sumarfrísins til að taka aðeins til í húsinu og setja saman fataskáp og skrifborð í Bjössa herbergi.  Skruppum reyndar í golf um daginn en við fórum aðeins að fikta við það í fyrra.

Í dag ætla ég að kíkja til mömmu og fara fyrir hana í búð.

Ég frétti aðeins af Lauju og Hröbbu á Ítalíu.  Það var víst frekar kalt þar í gær eða 22°C og Hrabba greyið var bara lasin og með hita, hún sem ætlaði til Lucca í gær.  Ég vona að hún hressist fljótt.  Hmmm smá mismunandi viðhorf til hitastigs eftir löndum (rakastigið breytir auðvitað miklu).  Hjá okkur voru þetta 12-15°C í gær, fólk flykktist á ylströndina í sólskininu og Kastljósið gekk að miklu leyti út á veðurblíðuna.


Gamlar myndir

Ég setti inn nokkrar myndir af krökkunum frá haustinu 2005 bara til að prófa.

Ég skrapp í kaffi til mömmu og í heimsókn til pabba á spítalann um sexleytið.  Ekkert sérstakt að frétta af þeim bara allt við það sama.  Pabbi virtist ekki alveg vita hvort hann hefði borðað kvöldmat eða hvort einhver hefði heimsótt hann í dag.

Við fórum á víkingahátíðina í millitíðinni sem var svo sem ágætt.  Það var reyndar alveg á mörkunum að ég nennti að fara.  Næst kíki ég kannski bara í búðir í Hafnarfirðinum á meðan strákarnir fylgjast með vopnaskaki og sviðnum kjötskrokkum.  Mér fannst víkingahátíðin skemmtilegri fyrir nokkrum árum þegar hún var haldin á túninu í Hafnarfirðinum.  Vona að hún verði færð þangað aftur.

 


Moli af jörðinni

Kíkti til mömmu í dag, Hanna var hjá henni í heimsókn og þær voru að skoða gamlar myndir saman.  Annars leiðist mömmu voðalega einveran og hræðist svimaköstin sem koma mjög óvænt.  Hún vill samt ekki huga að neinum breytingum á högum sínum.  Það er þó gott að vita af því að hún sé með öryggishnapp.

Svo hringdi Hrabba og ég fékk fréttirnar um nýju vinnunna.  Ég fann fyrir léttri depurð þegar ég heyrði að þau væru að keyra um skógi vaxnar hæðir Garfagnana.  Hugsa sér ég hefði getað verið þar líka, hu, hu, hu ... en við gerum eitthvað annað skemmtilegt þegar Lauja og Hrabba verða komnar heim.

Ég heimsótti líka pabba og tók krakkana með.  Hann hafði bara gaman af því enda hafði hann líklega ekki séð Bjössa í þrjár vikur og Þórdísi örugglega ekki frá því skömmu eftir heilablóðfallið.  Hann var alveg óruglaður í dag, talaði ekkert um að hann hefði gist hjá ákveðnu ráðskonunni á Hofi né að hann hefði verið í endurhæfingu hjá læknaritaranum.  Borðaði heilan fílamola og drakk hálfan kaffi af stút.

Þórdís fékkst loks til að segja mér í gær af hverju málverkið væri sem hún gaf okkur foreldrum sínum í jólagjöf.  Hún sagði: "Þetta er moli af jörðinni og það eru ský þarna hátt uppi, en þau sjást ekki".


Fyrsti fundurinn

Fyrsta skólaárið hans Bjössa er liðið og hann var hjá mér í vinnunni fyrir hádegi í dag og í gær og hjá Eika eftir hádegið.  Ég þurfti að fara á stuttan fund í morgun og ákvað að taka hann með mér frekar en að fresta fundinum, því ég gæti alltaf sent hann fram í sófann ef hann yrði eitthvað órólegur.  Ég sagði honum í gærkvöldi að hann mætti ekki segja eitt einasta orð á fundinum nema hann þyrfti á klósettið.

Hann var svooo spenntur í gærkvöldi þegar Eiki var að hátta hann: "Á morgun fæ ég að fara á fund í fyrsta skipti á æfinni".  Rosa tilhlökkun.

Þetta gekk ótrúlega vel.  Hann gerði það sem ég hélt að hann gæti ekki, - þagði allan tímann.  Ég var reyndar með i-pod fyrir hann til að hlusta á og Andrésar Andarbók, svo var honum líka boðið upp á bláan orkudrykk á fundinum, rosa flott (eitthvað sem hann fær aldrei heima hjá sér). 

Hann sagði samt þegar hann kom heim að hann vildi ekki vinna við að vera á fundum.


Nóg að gera

Fór í tryggingafélagið með pappíra í hádeginu, því við erum búin að fresta ferðalaginu okkar, og kíkti aðeins í kaffi til Hröbbu. 

Lauja systir er komin til Parísar.  Við urðum að skipta okkur niður á styttri ferðalagatímabil yfir sumarið í stað þess að fara allar saman.

Það var tekið vefjasýni úr lungunum á pabba á föstudaginn og við fáum að líklega að vita í dag hvað er að.  Það hefur verið ský yfir lungunum í nokkurn tíma sem talið er að sé lungnabólga en það virka hvorki pensillín né sterar.  Hann getur varla sest upp því þá fellur súrefnismettunin og hann verður að fá súrefnisgrímu.  Hann virðist samt eitthvað vera að styrkjast líkamlega og ætlaði bara að rjúka út úr rúminu á fimmtudaginn og koma með mér heim.  Hann er ekki alveg með sjálfum sér þessa dagana.

Brjálað að gera í vinnunni því ég ætla að reyna að komast í sumarfrí á mánudaginn.  Ætli maður fari ekki bara í túristaleik í Reykjavík.


Pabbi lasinn

Pabbi er búinn að liggja mjög veikur á sjúkrahúsi í rúmar fimm vikur.  Nú er svo komið að væntanlega munum við fjölskyldan hætta við sumarleyfisferð vegna þess, en við höfum verið að leggja á ráðin um hana frá síðasta hausti, draumaferðina til Toscana.  Jæja, ekkert við því að gera, við frestum bara ferðinni.  Það gerist víst ekki svo oft um æfina að manns nánustu þurfi virkilega á nærveru manns að halda.

Læknirinn og hans lið voru reyndar bjartsýnni í dag en verið hefur lengi, hver veit nema sá gamli hafi það af eftir allt.  Það skýrist víst um helgina.

Er búin að vera á kafi að skrifa umhverfisskýrslu, hitti svo ráðgjafa eftir helgina sem fer yfir.  Þetta er bara eins og að vera á kafi í mastersskýrsluskrifum.


Nýtt blogg

Þetta er fyrsti bloggdagurinn.  Ég má ekki vera að því að skrá neitt í dag en skelli hér inn einni uppskrift sem ég fékk hjá Manni Lifandi og er að hugsa um að prófa í kvöld því mér sýnist að ég eigi flest af því sem þarf.

Gulrótarsúpa með engifer og kókos


Fyrir 4
Eldunartími: Minna en 30 mín.

5-6     stk.      meðalstórar gulrætur
1/2     dl.        engifer, rifinn
1        stk.      laukur
3        msk.    sítrónusafi
1/2     dl.        hvítvín (má sleppa)
1/2     knippi  ferskur kóríander
1        dós      kókosmjólk
2        msk.    gerlaus grænmetiskraftur eða grænmetissoð
vatn eða grænmetissoð
salt og nýmalaður svartur pipar 
 
Aðferð:     Gulrætur og laukur er saxað smátt. Grænmetið er léttsteikt- þar til það er orðið meyrt í stórum potti. Þá er vatninu og grænmetiskraftinum/soðinu bætt útí og látið sjóða í ca. 15. mín. Þá ætti grænmetið að vera orðið það meyrt í gegn að töfrasproti ætti að ráða við að fullmauka súpuna. Eftir að hún hefur verið maukuð er hún bragðbætt með hvítvíni (þarf ekki), sítrónusafa og salti og pipar. Rifnum engifernum og kókosmjólkinni er þá bætt saman við. Látið malla við vægan hita í 5 mín eftir að hafa verið bragðbætt. Ferskur rifinn kóríander er settur yfir rétt áður en súpan er borin fram.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband