23.10.2007 | 12:25
Brúðkaupsafmæli
Við hjónin eigum 8 ára brúðkaupsafmæli í dag. Við gengum í það heilaga á sólríkum haustdegi í Þingvallakirkju. Af þessu tilefni fórum við út að borða á Einar Ben sl. laugardag. Við fengum þar mjög góðan mat og þjónustu og förum áreiðanlega þangað aftur. Við borðuðum steiktan saltfisk með rúsínumauki og drukkum Kanonkop rauðvín sem smellpassaði með. Í eftirrétt fengum við heita súkkulaðiköku og skyr créme brullé, namm. Fórum síðan á hótel Nordica og sátum með freyðivín við arineld langt fram á nótt.
Það féll í minn hlut að taka á móti litlu gaurunum eftir skóla í gær. Ég ákvað líka að sækja Þórdísi strax ef veðrið skyldi versna. Ég átti til stamp af sænskum piparkökum sem var keyptur um helgina og Bjössi vissi um glassúr í túbum uppi í efstu hillu í eldhúsinu. Svo ég lét þau fá það verkefni að skreyta piparkökur. Þau voru ótrúlega róleg lengi að dunda við að skreyta sem kom sér vel fyrir mig því ég var með heimaverkefni úr vinnunni. Ég hitaði síðan fyrir þau kakó og þau byrjuðu að horfa á jólamynd. Sú sæla entist þó ekki lengi því eftir smástund voru þau búin að tjalda á stofugólfinu, tína allar sængur, teppi og kodda inn í tjaldið og komin í gamnislag.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.