24.8.2007 | 09:14
Lykt af hausti
Jæja, þá fer maður að komast í gang aftur eftir sumarleyfi.
Við fórum með krakkana á menningarnóttina. Lögðum bílnum við Kjarvalsstaði og gengum alla leið niður í Aðalstræti með viðkomu á ýmsum stöðum. Krakkarnir voru orðin svo þreytt eftir þetta ferðalag að við tókum strætó til baka og kíktum aðeins á tónleikana á túninu og í fordrykk hjá Hröbbu áður en við fórum heim.
Bjössi er byrjaður í skólanum aftur. Við fórum í vikunni í Skólavörubúðina að kaupa stílabækur, blýanta og fleira sem vantaði. Mest fannst honum þó spennandi að fá sinn eigin vasareikni, samlokuvasareikni. Hann fór hjólandi í skólann í morgun með Kjartani vini sínum. Fyrsta skipti sem hann fer án foreldrafylgdar í skólann. Hann var aldrei þessu vant mjög spenntur að leggja af stað. Því miður er ekki búið að ráða neitt starfsfólk í skólaselið þannig að við erum í hálfgerðu vandræðapúsli með eftirmiðdagana. Við skiptum því reyndar á milli okkar tvennir foreldrar að sækja drengina til að dreifa álaginu. Vonandi fer þetta mál að leysast.
Svo er mannekla á leikskólanum hennar Þórdísar líka en senda þurfti 5 börn heim af deildinni hennar í fyrradag vegna veikinda starfsfólks. Maður getur því hvenær sem er átt von á því að þurfa að rjúka óvænt heim úr vinnunni. Þetta hefur auðvitað ekki aðeins áhrif á börnin og foreldrana heldur einnig vinnustaði foreldranna.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.