15.6.2007 | 20:26
Pabbi aftur með lungnabólgu
Við Adda fórum til pabba í dag. Hann svaf svo fast að við gátum ekki vakið hann. Hjúkrunarfræðingurinn, hún Gerður, mælti heldur ekki með því. Hún sagði að hann hefði sofið illa sl. nótt og liðið illa í morgun. Það er eitthvað vatn í lungunum og hann er með lágan blóðþrýsting. Það er ekki hægt að gefa honum þvagræsilyf til að losa vatnið úr lungunum því þá gæti blóðþrýstingurinn lækkað enn meira og það er ekki hægt að gefa honum vatn í æð til að jafna blóðþrýstinginn því þá gæti farið meira vatn inn á lungun. Ekkert að gera nema bíða og sjá til. Hann er á pensillíni og morfíni og svo fékk hann "friðarpípu" til að létta andardrátt. Hann hafði ágæta matarlyst í gær en enga í dag. Það var ekki einu sinni hægt að fá hann til að drekka vatn í dag. Hann átti mjög erfitt með að tala í gær og Gerður sagði að þannig hefði það líka verið í dag. Hann reynir og reynir en það kemur bara lágt hvísl og hann þreytist fljótt.
Hrabba er að koma heim frá Ítalíu í kvöld og mun útskrifast á morgun á 85 ára afmæli pabba. Ég vona að hann verði örlítið hressari á morgun svo hann hafi lyst á að bragða á kleinunum sem ég keypti handa honum í dag í tilefni morgundagsins, en ég verð því miður fjarri góðu gamni. Hann langar mest í kleinur og saltfisk eða saltkjöt, allt þetta sem er svo hollt og gott fyrir hjartað, eða þannig hmmm...
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.