Færsluflokkur: Lífstíll
14.11.2007 | 10:41
Fjölskyldan í ræktina
Bjössi byrjaði í karate í haust og hefur haft gaman af. Hann var reyndar búinn að fara í þrjú skipti í handbolta áður en var ekki spenntur fyrir því að mæta oftar, því miður því hann hefði orðið góð vinstri handar skytta. Nú mætir hann tvisvar í viku í Fylkishöllina og er farin að hlakka til að fá gula beltið, JAMME.
Við Eiki ákváðum að drífa okkur í líkamsræktina hjá Þreki í sama húsi og puða þar á meðan Bjössi er í karatetímunum. Það liggur við að maður yngist um 10 ár við hvert skipti, þetta borgar sig svo sannarlega. Svo er Þórdís svo ánægð í barnagæslunni. Það kom fyrir í eitt skipti um daginn að ég var löt og var að hugsa um að slaka á í sófanum heima, en Þórdís tók það ekki í mál. "Ég vil fara í leikfimihúsið og horfa á Tomma og Jenna". Svo er líka rennibraut. Nú þýðir ekkert lengur að reyna að skorast undan. Næst erum við að hugsa um að skella okkur bara í sund á eftir og taka með samlokur í nesti, því þetta er allt í gangi á kvöldmatartíma.
Það bráðvantar reyndar veitingasölu í grennd við sundlaugina og íþróttamannvirkin í Elliðaárdalnum. Maður getur keypt rúnnstykki, kleinur og eitthvað slíkt í sundlauginni, en það væri frábært að geta keypt súpu, samlokur og cappuccino á þessum slóðum. Kannski heitt kakó eftir röska vetrargöngu í dalnum.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)