Færsluflokkur: Dægurmál
28.9.2007 | 10:34
Foreldraraunir
Þá er september að verða búinn, haustið formlega tekið við og skipulagsdagar hafnir í skólunum. Leikskólinn hennar Þórdísar var lokaður á mánudaginn vegna skipulags en þá var ég með hana heima og reyndi jafnframt að sinna verkefnum vegna vinnunnar, svo er skólinn hans Bjössa lokaður í dag. Við Eiki vorum svo heppin að mamma besta vinarins bauð honum að vera hjá þeim í dag því hún er í vaktafríi.
Það hefur ekki fengist fólk til starfa í skólaselinu hans Bjössa þannig að við erum ennþá í því tvennir foreldrar að skiptast á að rjúka heim úr vinnu á miðjum degi, með aðstoð þeirra afa og amma sem hafa ennþá heilsu til að passa litla gaura.
Ofan á þetta bætist í næstu viku við að Þórdís verður send heim úr leikskólanum einu sinni í viku eftir hádegið vegna manneklu. Verði veikindi á starfsfólki gæti þurft að senda börnin heim oftar. Starfsmenn leikskólans tínast annaðhvort í fæðingarorlof eða í helmingi betur launuð störf annars staðar og enginn kemur í staðinn. Foreldrar voru mjög heitir út af þessu máli á fundi í leikskólanum nú í vikunni og ég hef heyrt frá fleiri foreldrafélögum að svipað sé uppi á teningnum hjá þeim.
Hvers vegna eru leikskólakennarar ekki með sömu laun og aðrir kennarar? Er þeirra ábyrgð minni? Þurfa þeir minni undirbúning, minni menntun, minna af einhverju?
Og hvað með frístundaheimilin? Ekki veit ég hver launin eru þar en mér finnst einkennilegt að þau séu svo lág að framhaldsskólanemar sjái sér ekki hag í slíkri aukavinnu.
Þetta er mál sem verður að leysa sem fyrst. Ég á orðið í vandræðum með að skila fullum vinnudegi, vandamálið er því farið að bitna á mínum vinnuveitendum líka. Maðurinn minn nær ekki fullri vinnuviku heldur. Hve lengi sætta vinnuveitendur sig almennt við það að starfsmenn fari heim eftir hádegi nokkrum sinnum í viku? Jafnvel þótt starfsmaðurinn taki með sér verkefni heim og vinni frameftir hina dagana þá er þetta óheppileg þróun sem veldur óróa og tætingi á heimili og í vinnu.
Það heyrist ósköp lítið frá stjórnvöldum um þetta mál. Eru þau að bíða eftir því að foreldrar hætti að vinna úti og fari að vinna heima? Þá færist manneklan bara frá leikskólum og frístundaheimilum til annarra starfa.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 10:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)