Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
28.9.2007 | 10:34
Foreldraraunir
Þá er september að verða búinn, haustið formlega tekið við og skipulagsdagar hafnir í skólunum. Leikskólinn hennar Þórdísar var lokaður á mánudaginn vegna skipulags en þá var ég með hana heima og reyndi jafnframt að sinna verkefnum vegna vinnunnar, svo er skólinn hans Bjössa lokaður í dag. Við Eiki vorum svo heppin að mamma besta vinarins bauð honum að vera hjá þeim í dag því hún er í vaktafríi.
Það hefur ekki fengist fólk til starfa í skólaselinu hans Bjössa þannig að við erum ennþá í því tvennir foreldrar að skiptast á að rjúka heim úr vinnu á miðjum degi, með aðstoð þeirra afa og amma sem hafa ennþá heilsu til að passa litla gaura.
Ofan á þetta bætist í næstu viku við að Þórdís verður send heim úr leikskólanum einu sinni í viku eftir hádegið vegna manneklu. Verði veikindi á starfsfólki gæti þurft að senda börnin heim oftar. Starfsmenn leikskólans tínast annaðhvort í fæðingarorlof eða í helmingi betur launuð störf annars staðar og enginn kemur í staðinn. Foreldrar voru mjög heitir út af þessu máli á fundi í leikskólanum nú í vikunni og ég hef heyrt frá fleiri foreldrafélögum að svipað sé uppi á teningnum hjá þeim.
Hvers vegna eru leikskólakennarar ekki með sömu laun og aðrir kennarar? Er þeirra ábyrgð minni? Þurfa þeir minni undirbúning, minni menntun, minna af einhverju?
Og hvað með frístundaheimilin? Ekki veit ég hver launin eru þar en mér finnst einkennilegt að þau séu svo lág að framhaldsskólanemar sjái sér ekki hag í slíkri aukavinnu.
Þetta er mál sem verður að leysa sem fyrst. Ég á orðið í vandræðum með að skila fullum vinnudegi, vandamálið er því farið að bitna á mínum vinnuveitendum líka. Maðurinn minn nær ekki fullri vinnuviku heldur. Hve lengi sætta vinnuveitendur sig almennt við það að starfsmenn fari heim eftir hádegi nokkrum sinnum í viku? Jafnvel þótt starfsmaðurinn taki með sér verkefni heim og vinni frameftir hina dagana þá er þetta óheppileg þróun sem veldur óróa og tætingi á heimili og í vinnu.
Það heyrist ósköp lítið frá stjórnvöldum um þetta mál. Eru þau að bíða eftir því að foreldrar hætti að vinna úti og fari að vinna heima? Þá færist manneklan bara frá leikskólum og frístundaheimilum til annarra starfa.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.8.2007 | 13:49
Töff miðbær úr steypu, gleri og stáli
Ég hef áhyggjur af því að með mikilli uppbyggingu nýtískulegra húsa við Laugaveg verði hann smám saman eins og Ármúlinn eða Hamraborgin og hver nennir að ganga þar um að óþörfu.
Gömlu húsin okkar eru líklega flest byggð af vanefnum og mörg orðin hálfónýt en mér finnst að við þurfum samt að fara sérstaklega varlega í að rífa þessi gömlu hús og byggja ný. Gott væri að sameina þetta á einhvern hátt. Mér finnst nýuppgerð hús í Aðalstrætinu og nýja gamaldags hótelið þar t.d. hafa heppnast vel fyrir þann stað.
Mér finnst að það mætti tengja betur saman Laugaveginn og Borgartúnið, tengja þannig gamalt og nýtt, auk þess sem bæta mætti umhverfi Borgartúnsins þannig að það henti betur gangandi vegfarendum. Það tekur ekki nema 2-3 mínútur að ganga á milli þessara gatna og nóg er af nýbyggingum í Borgartúninu.
Við sem búum inn undir Elliðaám förum ekki í gamla miðbæinn eftir nauðsynlegri þjónustu enda getum við farið mun styttra eftir henni. Við förum hins vegar í bæinn til að upplifa heimilislegt andrúmsloftið sem er hvergi annarsstaðar, nema kannski í gömlum bæjum í útlöndum, rölta um, sýna okkur og sjá aðra, kíkja á kaffihús og kaupa kannski eitthvað spennandi í leiðinni.
Gamla bæinn í Stokkhólmi, Gamla Stan, stóð til að rífa fyrir nokkrum áratugum. Mörg húsanna eru frá 16. og 17. öld og göturnar eru þröngar, hellulagðar miðaldagötur. Um miðja síðustu öld var Gamla Stan hálfgert "slömm". Mikið af gömlum húsum voru rifin í Stokkhólmi 1950-1970 og byggð nýtískuleg háhýsi í staðinn, nú kallað City. Þessi nýi miðbær þeirra þykir fáum fallegur. Gamla Stan fékk hins vegar að vera og var endurnýjað í sínum miðaldastíl. Það iðar nú af mannlífi og hefur mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn enda er þar mikið af litlum minjagripabúðum, fataverslunum, veitingastöðum og kaffihúsum.
Í miðbæ Osló er mikið af gömlum húsum í nýklassískum stíl sem voru byggð á árunum 1850-1900, innanum voru nokkur "slömm" rifin á sjöunda áratugnum og byggð nýtískuleg hús úr steypu og stáli sem á Wikipedia.com er lýst sem vandræðalegri hryggðarmynd ( e. embarrassing eyesores).
Mér finnst skipulagsstefnan í gamla bænum hér í Reykjavík, og reyndar í nágrannabæjunum, oft undarleg og lyktar hún helst af því að landeigendur ráði í raun meiru en skipulagsyfirvöld. Háhýsabyggð við ströndina, stórir kumbaldar sem skyggja á sól og valda vindsveipum. Þetta lítur kannski glæsilega út af hafi, en hentar kannski ekki allra best hér í landi hinna hressandi norðanvinda.
Núna er t.d. afskaplega falleg sýn frá Bankastrætinu út á Faxaflóann og eyjarnar eftir að Faxaskemman var rifin. Þarna gæti maður auðveldlega séð fyrir sér líflega lága verslunar- og þjónustubyggð og kannski eitthvað í líkingu við Akersbryggju í Osló þar sem menn sitja úti á sumardögum yfir drykk. En ég óttast það að með tilkomu fyrirhugaðs tónlistarhúss, sem út af fyrir sig virðist flott, og aðlægra blokka í austantjaldsstíl hverfi þetta fallega útsýni úr bænum.
Hægt er að sjá kynningu á tillögu að tónlistarhúsi á http://austurhofn.is/
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)